154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

afstaða Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.

469. mál
[12:48]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í dag ályktar Alþingi Íslendinga um vopnahlé, vopnahlé strax af mannúðarástæðum á Gaza-svæðinu svo að tryggja megi öryggi almennra borgara, jafnt palestínskra sem ísraelskra. Hugur okkar er hjá borgurum í Palestínu sem nú þjást vegna þessa hörmulega stríðs. Hugur okkar líka hjá gíslunum sem sitja fastir í klóm hryðjuverkasamtaka. Hugur okkar er hjá aðstandendum þeirra sem látið hafa lífið í hryðjuverkaárásum og því skelfilega stríði sem fylgdi í kjölfarið.

Það er auðvelt að fordæma allt ofbeldi. Það er aftur á móti ofboðslega erfitt að skilja það djúpstæða og mikla hatur sem ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem við horfum upp á hópa í átökum, hópa sem vilja raunverulega eyða hvor öðrum og virða ekki rétt hvor annars. Því miður hefur alþjóðasamfélaginu ekki tekist að koma í veg fyrir þessar hörmungar þrátt fyrir skýrar ályktanir og afstöðu um tveggja ríkja lausnina, þrátt fyrir þær ályktanir sem samþykktar hafa verið hér á þessu þingi, þar sem við virðum bæði Ísrael og Palestínu. Við erum vanmáttug í þessu öllu. Það orðalag sem við höfum komið okkur hér saman í dag er gott og mikilvægt og mig langar að nota tækifærið og þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur og allri utanríkismálanefnd fyrir þessa vinnu. Það er mikilvægt að við komum okkur saman um þetta mál.

Ég gæti líka rætt það furðulega ástand sem uppi hefur verið í samfélagsumræðunni í kjölfar atkvæðagreiðslunnar hjá Sameinuðu þjóðunum þar sem Evrópusambandsríkin splittuðust upp í þrjá hópa, sumir greiddu atkvæði með, aðrir á móti og aðrir sátu hjá, eins og Ísland og Norðurlöndin og NB8-löndin að Noregi undanskildum. Það væri líka hægt að ræða það sem hér hefur verið nefnt í ræðum, hvaða áhrif þetta er að hafa á heimsmyndina alla. Hverjir eru að fjármagna stríðið? Hverjir sjá sér einhvers konar hag í þeim hörmungum sem ríða yfir palestínsku þjóðina og ísraelsku þjóðina núna? Við gætum líka velt því fyrir okkur þeim árásum sem Rússar eru að gera í Úkraínu núna og þeim hryllingi að þeir „nota tækifærið“ og hafa sprengt meira en nokkru sinni fyrr í Úkraínu þegar augu heimsbyggðarinnar eru á hörmungunum fyrir botni Miðjarðarhafs.

Virðulegur forseti. Ég held að við hér í þessum þingsal og hv. utanríkismálanefnd munum á næstu misserum þurfa að verja umtalsvert meiri tíma í að ræða einmitt stóru myndina sem er að teiknast upp. En í dag er hugur okkar hjá Palestínu, hugur okkar hjá gíslunum og við ályktum skýrt um það að við viljum vopnahlé af mannúðarástæðum.

Virðulegur forseti. Ég ætla að fá að enda á þessum orðum, texta Johns Lennons úr laginu Imagine, í þýðingu Þórarins Eldjárns:

Já, hugsaðu þér heiminn
halda grið og frið.
Mér er sagt ég sé með óra
en ég er ekki ein um það.
Já, komdu með, við höldum hópinn.
Gerum heiminn að griðastað.