135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

uppfylling ákvæða í kaupsamningi Símans.

[15:09]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er alkunna að hæstv. forsætisráðherra er alveg sáttur við að hlutirnir gangi hægt fyrir sig og hann er ánægður með það verklag hjá ríkisstjórninni að tveimur og hálfu ári eftir sölu Símans örlar ekki á efndum hvað varðar uppbyggingu gagnaflutninga og háhraðatenginga um landið sem átti m.a. að nota söluandvirðið í. Það er í samræmi við taktinn í verkum sem hæstv. forsætisráðherra er sáttur við að þetta fari lestargang allt saman.

Það var algerlega skýrt í kaupsamningnum eins og þar segir m.a., með leyfi forseta, að hlutur, „ekki minna en 30% af heildarhlutafé félagsins yrði af hálfu kaupanda boðinn almenningi og öðrum fjárfestum til kaups, í síðasta lagi fyrir árslok 2007“. Þetta var lokafrestur, að sjálfsögðu. Samkvæmt orðanna hljóðan reiknuðu menn heldur með því að þetta yrði búið vel fyrir þann tíma og það er sömuleiðis að lágmarki 30% þannig að það eru lágmarksskilyrðin sem fyrirtækið átti að uppfylla (Forseti hringir.) sem í báðum tilvikum er núna fallið frá. Þetta er heldur lélegt, verð ég að segja, (Forseti hringir.) herra forseti, hjá hæstv. forsætisráðherra.