136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

gjaldeyrislán frá öðrum þjóðum.

[15:44]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ef ég veit rétt um skipulag vinnu þessa þings, það er náttúrlega alls ekki víst að ég viti það, verður enginn þingfundur hér fyrr en á fimmtudag. Ef ég hef tekið rétt eftir upplýsti hæstv. forsætisráðherra að á miðvikudag lægi fyrir afgreiðsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hvaða ríki mundu koma inn í lánasamninginn eða lánapakka að því er varðar Ísland. Þessir hlutir eru þá frágengnir áður en Alþingi getur tekið þessi mál til meiri efnislegrar umræðu að því er varðar framgang og fyrirkomulagið allt saman.

Ég spyr einnig, hæstv. forseti, hvort núna liggi fyrir samkomulag um að þær eignir sem bankarnir eiga í Evrópusambandslöndunum verði verndaðar. (Forseti hringir.) Það séu þá sameiginlegir hagsmunir Evrópusambandsins, Evrópusambandslandanna og Íslands að standa vörð um þær eignir og þær gangi upp í allar skuldir (Forseti hringir.) sem Íslendingar taka á sig.