138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

afgreiðsla Icesave-málsins úr nefnd.

[13:43]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Það er rétt að ég sagði það fyrr í sumar að þingmenn ættu að taka á sig smárögg og klára þetta mál, afgreiða það þegar á því var færi á sínum tíma. Við værum kannski betur á vegi stödd á mörgum öðrum sviðum ef við hefðum gert það og ég er enn þeirrar skoðunar. (VigH: Ertu úti á sjó?) Ég er enn þeirrar skoðunar. Þú mátt vera úti á sjó, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, ef þú vilt það, það er ágætt að vera úti á sjó. (Gripið fram í.) En hv. þm. Höskuldur Þórhallsson sagði að ég hefði ekki tjáð mig um hvers vegna málið var tekið út á fundi fjárlaganefndar í gær — þá hefur hann annaðhvort sofið á þeim fundi eða farið á sinn venjubundna miðilsfund sem hann hefur oft lýst yfir að hafi farið fram á fundum fjárlaganefndar. Ég tjáði mig víst um það, um það geta allir nefndarmenn í fjárlaganefnd vitnað að undanskildum hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni.

Ég tel að þetta mál sé fullrætt. Það er búið að ræða þetta mál núna í bráðum hálft ár í þessum sal, í nefndum Alþingis, í fjárlaganefnd, í efnahags- og skattanefnd, í utanríkismálanefnd, það er búið að ræða þetta á tugum funda ef ekki hundruðum. Það er búið að kalla inn á fundi tugi einstaklinga, fulltrúa félagasamtaka, fulltrúa stofnana og alla þá sem hafa haft áhuga á að ræða þetta mál, þeir hafa fengið aðgang í nefndir og rætt þetta og tjáð sig. Málið er fullrætt að mínu viti. Það er engu við þetta að bæta og við þingmenn eigum sömuleiðis að sýna smádug, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, og afgreiða þetta mál, klára það eins og það er í dag. Við förum ekki lengra með það, það er vel ásættanlegt eins og það er. (Gripið fram í: Já, er það?) Það uppfyllir þær kröfur sem Alþingi setti í sumar (Gripið fram í.) og við eigum að klára það núna.