138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

afgreiðsla Icesave-málsins úr nefnd -- vinnulag á Alþingi.

[13:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég hef setið í hv. efnahags- og skattanefnd og ég tek það starf alvarlega. Okkur var falið af hv. fjárlaganefnd að fjalla um efnahagslegar afleiðingar þessa nýja samkomulags um Icesave. Það er ekki rétt að málið hafi verið rætt í hörgul. Það eru komnir nýir fletir á málinu, nú skal greiða vexti hvernig sem árar og lánið gæti hugsanlega orðið endalaust, 50–100 ára lán með hugsanlega mjög háum raunvöxtum sem þjóðin þarf að greiða — hugsanlega.

Svo sat maður alla síðustu helgi undir gífurlegri pressu að reyna að átta sig á þessu: Hvað þýðir það að búið er að frysta kröfurnar niður í krónutölu? Hvað þýðir það að komin er heilmikil gengisáhætta inn í dæmið? Hvernig á að bregðast við því þegar búið er að lengja lánið hugsanlega endalaust? Þetta gerði ég um síðustu helgi og vann mikið og stíft í þessu og skilaði nefndaráliti undir mikilli tímapressu sem átti að fara til fjárlaganefndar. Svo upplifði ég það, frú forseti, í gær að málið var tekið út átta tímum eftir að nefndaráliti var dreift á fundinum á meðan umræður voru á Alþingi þar sem þingmenn voru uppteknir við umræður. Þvílík vanvirðing, frú forseti, á starfi efnahags- og skattanefndar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)