138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[14:48]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 47/2006, um kjararáð. Á mannamáli má segja að þetta frumvarp snúist um að lækka kaup m.a. þeirra sem vinna á Alþingi eða þeirra sem hér starfa sem kjörnir fulltrúar.

Meginmarkmið frumvarps þessa tengist því að draga úr útgjöldum ríkissjóðs á erfiðum tímum og mæta stórfelldum tekjusamdrætti vegna efnahagskreppunnar, að þeir sem í betri færum eru til þess leggi sitt af mörkum m.a. með því að hærri laun og hæstu laun séu lækkuð.

Frumvarp þetta mælir í fyrsta lagi fyrir um framlengingu þess að óheimilt sé að hækka laun þeirra sem falla undir úrskurðarvald kjararáðs nú til ársloka 2010. Í reynd er um að ræða framlengingu á ákvæði sem kom inn í lög sem ákvæði til bráðabirgða og felur þetta í sér. Þannig verður til ársloka 2010 óheimilt að hækka laun umfram úrskurði kjararáðs sem kveðnir voru upp á árinu 2009, þar á meðal úrskurði um launalækkanir alþingismanna, ráðherra og annarra sem heyra undir úrskurðarvald kjararáðs og kjararáði var falið með fyrirmælum í lögum að gera.

Kjarasamningar verða almennt lausir 30. nóvember 2010. Úr því er að sjálfsögðu ekki ljóst hvernig aðstæður þróast en fram að þeim tíma, sem sagt langleiðina út næsta ár, liggja fyrir gildandi kjarasamningar þar sem sami tónninn er sleginn í öllum tilvikum, að ég hygg, þ.e. að aðeins lægstu laun taka einhverjum hækkunum en almennt haldast hærri og hæstu laun óbreytt. Það ætti þar af leiðandi ekki neitt að vera því til fyrirstöðu að ganga frá því í hvaða samhengi þessi ákvörðun verður framlengd. Hún rímar við þá áherslu í launamálum sem almennt hefur orðið samstaða um í samningaviðræðum aðila vinnumarkaðarins, bæði á almenna vinnumarkaðnum með samningum Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins, sömuleiðis hvað varðar samninga ríkisins við BSRB og önnur þau samtök sem þegar hefur samist við. Á hinn bóginn er ekki heldur gert ráð fyrir því að binda kjararáð lengur en til ársloka 2010 með þessari ráðstöfun, enda verður þá orðið eitthvað skýrara um framhald kjaramála og þróun þeirra mála hér í landinu. Ráðstöfuninni er sem sagt ætlað að gilda tímabundið og að því búnu gæti kjararáð að óbreyttu fellt að nýju aðra úrskurði um þá sem heyra undir úrskurðarvald þess, að sjálfsögðu að teknu tilliti til kjara þeirra viðmiðunarhópa sem horft er til eins og kjör verða á þeim tíma. Heimilt yrði engu að síður að endurskoða úrskurði til lækkunar, til dæmis ef í ljós kæmi að viðmiðunarhópar hefðu lækkað enn meir en sem nemur úrskurðum ráðsins. Þá er kveðið á um að þetta ákvæði taki ekki til forseta Íslands. Það helgast af ákvæði 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að óheimilt skuli að lækka greiðslur af ríkisfé til forseta á kjörtímabili hans.

Í öðru lagi mælir frumvarpið fyrir um að við ákvörðun launa nýrra aðila sem falla undir úrskurðarvald kjararáðs skuli gætt samræmis eins og kveðið er á um í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II. Kjararáð skuli við ákvörðun launa þessara aðila gæta samræmis við þá launalækkun sem ákvörðuð var til handa alþingismönnum, ráðherrum og öðrum sem heyra undir úrskurðarvald ráðsins. Tilgangurinn er að þeir sem hæstu launin hafa lækki hlutfallslega mest að jafnaði eins og kunnugt er. Kjararáði er eftirlátið svigrúm til að útfæra þá ákvörðun. Hér er m.a. átt við ákvörðun launa samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna og hugsanlega nýrra forstöðumanna sem geta komið til og fallið undir kjararáð við sameiningar stofnana ríkisins eða annað í þeim dúr. Ein af forsendum sem gengið er út frá er að laun þessara aðila hækki ekki á árinu 2010.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari og hef ég lokið máli mínu.