138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

lyfjalög.

198. mál
[16:38]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt, þetta átti að vera hluti af stærra máli og er það í raun. Ósk hagsmunasamtaka sjúklinga og aðstandenda hefur verið um langan tíma að reyna að einfalda þetta kerfi, sem sé endurgreiðslur Tryggingastofnunar og Sjúkratryggingastofnunar á greiðsluþátttöku sjúklinga. Að einfalda og gera skýrara allt sem lýtur að því að fá afslætti eða hvernig greiðsluþátttaka sjúklinga er byggð upp. Ég tek undir þá hugsun.

Búið var að leggja mikla vinnu í undirbúning sem í byrjun átti að vera að einfalda endurgreiðslu eða greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði en breikkaði og fór yfir í að taka miklu meiri þjónustu undir sem varð til þess að vinnan varð það umfangsmikil að hún að hluta til strandaði. Það var erfitt að sjá vinnuna ganga upp á þessu stigi þegar hún var lögð til hliðar en þær upplýsingar sem nefndin hafði aflað liggja fyrir og eru mikilvægar. Ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til að halda áfram að nýta þær upplýsingar til að vinna áfram að þessari einföldun. Hugsanlega þurfum við að byrja í smærri stíl, byrja á því sem við ætluðum okkur í upphafi, þ.e. að taka eingöngu lyfin og þann málaflokk. Ef það gengur vel ættum við að halda því fyrirkomulagi því við ætlum að búa til kerfi til að yfirfæra á aðra þjónustu. Ég tek undir það og eins tek ég undir (Forseti hringir.) óróleika hv. þingmanns varðandi flutning öldrunarþjónustu yfir til sveitarfélaga því tíminn líður.