138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

lyfjalög.

198. mál
[16:53]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hennar ræðu. Ég kannaðist held ég við öll þau mál sem voru tilgreind. Allt eru þetta mál sem við vorum að vinna að og margt er komið mjög langt á veg. Það er gaman að heyra að 60 lyf séu komin í gegnum Svíþjóð. Þegar ég fór frá 1. febrúar voru þau eitthvað færri. Einnig er mjög gott að menn séu komnir í samstarf við Noreg um innkaup. Það er búið að vinna að því mjög lengi og síðast þegar ég, sem ráðherra, talaði við norska ráðherrann var hann tilbúinn að ganga í það að því gefnu að þetta mundi ekki ganga upp fyrir öll Norðurlöndin sem heild. Þó að það sé slæmt að þetta hafi ekki getað gengið eftir, sem er væntanlega niðurstaðan, er samt mjög gott að gera þetta með Noregi og það mun án nokkurs vafa skila okkur hagstæðari innkaupum.

Varðandi innrennslisvökvann þá hvet ég menn til að skoða sérstaklega samstarfið við Færeyjar, sem og aðra. Færeyingar eru í sérkennilegri stöðu því að þeir eru með lægra lyfjaverð en við Íslendingar þótt þeir séu mun fámennari þjóð. Ýmislegt fleira mætti nefna og þetta er þannig umræða að ég klára ekki að fara yfir hana á þessum tveimur mínútum.

Hins vegar er ákveðinn misskilningur hjá hæstv. ráðherra. Menn töldu ekki að það að lækka eða afnema afslættina í smásölunni mundi hækka verðið. Þegar þeir afnámu afslættina á heildsölu hækkaði það ekki verðið, það lækkaði verðið. Menn vildu gera þetta allt saman í einu ef einhvers staðar gæti það leitt til þess en í heildina var talið að með því að afnema afslætti yrði samkeppnin skilvirkari, þetta yrði gegnsærri markaður og menn þyrftu þá smám saman að keppa í verði. Með öðrum orðum vildu menn reyna að lækka verðið, alveg sama hvort það er til hjartasjúklinga eða annarra. Það er mikilvægt að við höfum það í huga þegar um þetta er rætt. Svo sannarlega lögðu menn ekki af stað í þessa vegferð til að hækka verð hjá sjúklingum.