138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi.

13. mál
[20:10]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu mikilvægt það er að koma hinum margfrægu hjólum atvinnulífsins aftur af stað, svo mikið er undir fyrir íslenskt þjóðarbú. Má með sanni segja að lausn þess efnahagsvanda sem við búum nú við sé öll einmitt á þeim punktinum, hún hverfist öll um þann sama punkt, að koma aftur efnahagslífinu af stað, koma skattstofnunum í það ásigkomulag að þeir geti staðið undir þeirri þjónustu sem við viljum veita á vettvangi hins opinbera og að á Íslandi megi áfram bjóða upp á lífskjör sem eru samkeppnishæf við það besta sem gerist í löndunum í kringum okkur. Það er engin ástæða til að ætla annað en að hægt sé að sigrast á því verkefni sem fram undan er. Við erum með tækin og tólin í höndunum og þau tækifæri sem við okkur blasa gefa okkur ástæðu til að ætla að þrátt fyrir allt sé bjart fram undan á Íslandi.

Vil ég þar m.a., frú forseti, vitna í ummæli ágætra hagfræðinga sem hingað til lands hafa komið til þess að skoða hér aðstæður og gefa ráð, m.a. þess hagfræðings sem var hér fyrir skemmstu og hefur notið töluverðrar frægðar á alþjóðavettvangi, Josephs Stiglitz. Hann sagði í viðtali við írska fjölmiðla eigi fyrir svo löngu að menn skyldu horfa til Íslands, Íslendingar ættu alla möguleika á því að vinna sig hratt út úr kreppunni, m.a. vegna þess að við búum við þá stöðu að þó að ákveðið vandamál felist í því að gengi gjaldmiðilsins hrundi kemur á móti að útflutningsatvinnuvegirnir, framleiðslan í landinu, ferðamennskan og ýmislegt annað er nú í mikilli sókn og á mikil tækifæri í vændum. Þetta eigum við að horfa á. Til þess að allt þetta megi gerast, til þess að þessi tækifæri verði nýtt, til þess að hjól atvinnulífsins fari nú aftur að snúast, til þess að skattstofnarnir braggist þarf auðvitað ríkisstjórnin að haga sínum málum af skynsemi. Það þarf að leggja réttan grunn og það þarf að grípa til réttra aðgerða til að við náum þessum árangri. Þess vegna hefur Sjálfstæðisflokkurinn, þó að við séum í stjórnarandstöðu, t.d. lagt fram mjög umfangsmiklar efnahagstillögur þar sem við förum nákvæmlega yfir það með útreikningum og tillögugerð hvernig brúa megi gat ríkissjóðs og hvernig megi leysa þann gjaldeyrisvanda sem við stöndum frammi fyrir. Við höfum einnig flutt ýmsar hugmyndir um skattheimtuna sérstaklega og annað það sem til betri vegar má horfa í atvinnulífi okkar Íslendinga. Meðal annars ræddum við í þingsölum í gær áskorun margra þingmanna Sjálfstæðisflokksins og margra hv. þingmanna Framsóknarflokksins um að ríkisstjórnin drægi til baka hugmyndir sínar og fyrirætlanir um afskrift og fyrningu aflaheimilda sem hefur nú þegar sett einn meginatvinnuveg þjóðarinnar í heilmikinn vanda.

Sú þingsályktunartillaga sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggja hér fram ber þess merki að reynt er að koma einhvers konar skipan á þessi mikilvægu mál sem lúta að erlendri fjárfestingu inn í okkar hagkerfi. Það er alveg gríðarlega mikilvægt að akkúrat svona hugmyndir nái fram að ganga vegna þess að það er það sem við þurfum núna svo mjög á að halda, að erlendir aðilar komi hingað til landsins með sitt fé og fjárfesti hér fyrst og síðast í framleiðslu. Við tókum jú inn alveg gríðarlegt magn af lánsfé, m.a. vegna stefnu Seðlabanka Íslands sem byggði peningamálastjórn sína á miklum vaxtamun milli Íslands og umheimsins sem kallaði inn í landið alveg gríðarlegt erlent lánsfé sem við stöndum nú frammi fyrir að vill leita aftur úr landinu og við þurfum að borga til baka. Setur það heilmikla pressu á gengi krónunnar og til þess að létta á henni, til þess að við eigum m.a. betri möguleika á að borga þær miklu skuldbindingar sem við svo sannarlega virðumst ætla að gangast undir vegna Icesave-samninganna, þurfum við framleiðslu. Þá þurfum við útflutning. Og hluti af því er einmitt að fá til landsins erlent fjármagn til að byggja upp framleiðslu með okkur, til að nýta þær auðlindir, orkuauðlindir og aðrar, sem við eigum og er það ekki síst hin mikla menntun sem íslenska þjóðin býr yfir, að nýta þá miklu menntun til auðsköpunar þannig að við getum, eins og ég sagði í upphafi máls míns, frú forseti, boðið á Íslandi upp á lífskjör sem eru jafnfætis og standast samanburð við það besta sem gerist í löndunum í kringum okkur.

Að mínu mati hefur verið farið hér nokkuð vel í gegnum einstök efnisatriði þessarar þingsályktunartillögu. Hún snýr auðvitað að almennri rammalöggjöf utan um erlendar fjárfestingar. Kannski í því samhengi, af því að við erum að ræða um erlenda fjárfestingu í auðlindum, vil ég nota tækifærið og velta því hér upp að við skoðum það þá á vettvangi þeirrar nefndar sem fer með þetta mál, það þarf líka reyndar að ræða það í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, hvort ekki sé rétt að við íhugum að breyta reglum sem gilda um fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegi. Það sem ég horfi sérstaklega til er fiskvinnslan. Getur verið ástæða til að hleypa fjármagni meira inn í fiskvinnsluna? Ég held að nokkuð góð samstaða sé um það á þingi og hjá þjóðinni allri að við viljum ekki erlenda eignaraðild að fiskveiðikvótanum. Hvað varðar fiskvinnsluna sjálfa, m.a. fullvinnslu sjávarfangs þannig að hægt sé að flytja það beint inn á neytendamarkað í Evrópu eða í Bandaríkjunum eða hvar sem verkast vill, er alveg ástæða til að velta fyrir okkur hvort við eigum ekki að opna inn á slíkar fjárfestingar. Það kann að vera heilladrjúgt að kalla inn erlent fjármagn sem við þurfum svo sannarlega á að halda og ég sé ekki neina sérstaka hættu fólgna í því að við hleypum slíku fjármagni inn í sjávarútveginn. Það mundi efla greinina mjög að mínu mati og gera henni enn betur fært að standa undir þeim skuldum sem hún nú þegar býr við. Væri slík ákvörðun í fullkominni andstöðu reyndar við allar fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar sem virðist stefna að því einna helst að breyta þeim tækifærum sem við höfum nú í sjávarútveginum yfir í það að gera sjávarútveginn að sérstöku efnahagsvandamáli, eins og kannski var að hluta til á árum áður.

Þegar saman er tekið er það sem skiptir þá máli, bæði í þessari umræðu og almennt um efnahagslífið, það að hér sé einmitt settur rammi utan um svona hugmyndir eins og ég reifa varðandi fjárfestingar útlendinga inn í sjávarútveginn með takmörkuðum hætti eða inn í orkuiðnaðinn eða hvað það er sem við erum að horfa á. Aðalatriðið er að það sé skýr og skilmerkilegur rammi utan um þetta sem menn geta gengið að og treyst.

Og það vildi ég gera að lokaorðum mínum að það er vont til þess að vita að nú sé farið að ræða það, m.a. á meðal erlendra fjárfesta sem hafa tjáð sig um þetta mál hér á Íslandi, að það sé orðið erfitt að treysta því hvað íslensk stjórnvöld ætli sér að gera frá degi til dags í þessum málum, það sé ekki full vissa um að íslenska stjórnkerfið virki þannig að menn geti treyst því. Það gerir það að verkum að menn hika við að fjárfesta á Íslandi og þegar menn fjárfesta hér krefjast þeir um leið hærri vaxta fyrir fjárfestingu sína vegna þess að það myndast hægt og rólega það sem kallað er „pólitískt álag“ á okkar land, það sé hætta fólgin í pólitísku stöðunni sem gerir það að verkum að menn krefjist hærri vaxta fyrir fjárfestingu sína. Það er alvarlegt mál sem mun draga hér úr hagvexti og minnka möguleika á því, frú forseti, að vinna okkur hratt og örugglega út úr þeirri kreppu sem við stöndum frammi fyrir, af því við eigum svo sannarlega alla möguleika á því. Það eru allir möguleikar fyrir okkur í þessum málum, við höfum auðlindirnar, við höfum fólkið og við höfum viljann. Það er bara að virkja þennan vilja og leyfa þjóðinni að grípa þau tækifæri sem eru til staðar. Til þess þarf stjórnvöld sem vinna af skynsemi og af festu til að tryggja það að við komumst út úr þeirri kreppu sem nú er við að eiga.