138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

staða minni hluthafa.

24. mál
[21:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég held að hér sé um að ræða mjög merkt og þarft mál. Það hefur komið fram hvílík þrautaganga það hefur verið að koma fram máli sem þessu eða skyldu máli. Í fljótu bragði virðast hafa setið a.m.k. fjórar, ef ekki fimm, ríkisstjórnir síðan byrjað var að ræða það.

Ég vil byrja á að lýsa því yfir að mér líst vel á málið og ég held að það sé mikilvægt að það fái býsna góða og hraða umfjöllun í viðskiptanefnd. Eins og ég sé það fyrir mér er aðalmálið að skipa þá nefnd sérfræðinga sem hér er talað um. Það ætti ekki að vefjast lengi fyrir þingheimi og nefndum að útbúa lýsingu á því hvað sú nefnd eigi að gera og fela henni að hefja störf. Ég hugsa að það væri í sjálfu sér gott ef það gæti orðið mjög hratt.

Það er gott að sjá í þessari þingsályktunartillögu að tiltölulega stuttur tími er gefinn í málið. Ég held að löggjafinn geri of lítið af því að setja framkvæmdarvaldinu strangan og skýran tímaramma varðandi verkefni sem við felum því og ég held að við ættum að skoða vandlega að taka upp þau vinnubrögð að setja framkvæmdarvaldinu ákveðinn ramma þannig að ekki sé hægt að þvæla málunum út í það óendanlega.

Ég ætla ekki að nýta allan ræðutíma minn, heldur eingöngu segja að ég vona að þessi þingsályktunartillaga fái góða umfjöllun, sem ég treysti, í viðskiptanefnd eins og þau mál sem þangað er vísað núna. Það er gott til þess að vita að það er mikill áhugi í nefndinni. Ég vona að menn taki málið fyrir því að það er vissulega brýnt. Það er brýnt að tryggja hag þessara minni hluthafa. Ég skil þær hugmyndir sem hér hafa verið reifaðar þannig að þá sé ekki hugsun um leið að leggja til að það sé endilega minnkaður réttur meiri hluta hluthafanna heldur sé skýrður sá réttur sem minni hluthafar hafa. Ég held að það sé mikilvægt að meiri hluti hluthafa hafi áfram eitthvert ákveðið vægi, fyrir það er hann meiri hluti. Hins vegar er mjög mikilvægt að ekki sé legið á upplýsingum og að það sé augljóst ferli í fyrirtækjunum um að það sé verið að upplýsa alla um ákvarðanir og slíkt. Ég held að þessi nefnd hljóti að skoða ýmsa aðra hluti ef af þessu verður sem ég vona svo sannarlega að verði mjög fljótlega.