140. löggjafarþing — 27. fundur,  28. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[21:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að fagna sérstaklega þeirri merku tillögu í utanríkismálasögu Íslendinga sem hér er til umræðu. Á nokkrum stöðum í greinargerð með þingsályktunartillögunni er orðalag sem ég hefði hugsanlega kosið að hafa örlítið öðruvísi en ég læt það liggja á milli hluta.

Breytingartillaga var lögð fram eftir mikla vinnu og umræðu í utanríkismálanefnd þar sem hnykkt er sérstaklega á nokkrum atriðum. Þar er skorað á Ísraelsmenn og Palestínumenn að leita sátta með friðarsamningum á grundvelli þjóðaréttar og ályktana Sameinuðu þjóðanna sem meðal annars fela í sér gagnkvæma viðurkenningu Ísraelsríkis og Palestínuríkis.

Svo töldum við líka mikilvægt að árétta að PLO, Frelsissamtök Palestínumanna, séu hinn lögmæti fulltrúi allrar palestínsku þjóðarinnar og að minna á rétt palestínsks flóttafólks til að snúa aftur til fyrri heimkynna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna. Við töldum þetta það mikilvægt að það væri rétt að færa í tillöguna sjálfa í stað þess að láta nægja að hafa það í greinargerð. Loks var þess krafist af deiluaðilum fyrir botni Miðjarðarhafs að þeir láti þegar í stað af öllum hernaði og ofbeldisverkum og virði mannréttindi og mannúðarlög. Það er kjarni málsins í þessu öllu saman að þetta er til þess ætlað að stuðla að friðsamlegri sambúð Palestínumanna og Ísraela.

Í nefndaráliti sem fulltrúar Framsóknarflokksins í utanríkismálanefnd undirrituðu, ég og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, og eru aðilar að er saga þessara mála er varðar aðkomu Íslendinga rakin. Af þeirri samantekt má sjá að sú tillaga sem hér er mælt fyrir er eðlilegt framhald af þeirri umræðu og ályktunum sem frá Alþingi Íslendinga hafa komið. Alþingi og Íslendingar hafa margsinnis ályktað um málefni Palestínumanna og einatt í þá veru að leggja lóð á vogarskálarnar svo stuðla mætti að friði á svæðinu. Ég læt vera að rekja þessar fyrri ályktanir en tek þó undir það sem fram kemur í nefndarálitinu að það sem hér er mælt fyrir um er rökrétt framhald þeirra ályktana.

Ég vil sérstaklega geta þess að framsóknarmenn hafa lengi látið sig stöðu palestínsku þjóðarinnar varða. Sérstaklega vil ég minnast baráttu Steingríms Hermannssonar fyrir því að vekja athygli á stöðu Palestínumanna og vinna að bættri stöðu þeirra. Því miður hefur árangurinn af ályktunum á Alþingi í gegnum tíðina og þeim fjölmörgu tilraunum margra ríkja til að koma á friði á svæðinu ekki verið nægur. Jafnvel má segja að þróunin hafi um margt verið sérstaklega óhagstæð fyrir Palestínumenn. Hér hafa menn nefnt þær ótrúlegu aðgerðir Ísraelsmanna að reisa múra í kringum byggðir Palestínumanna. Við flest eða líklega öll fylgdumst undrandi með því þegar Austur-Þjóðverjar voru látnir búa áratugum saman við það að vera múraðir inni. Þeir múrar voru þó reistir af stjórnvöldum þess lands. Hvað má þá segja um það þegar þjóð er múruð inni af öðru ríki? Alþjóðasamfélagið getur ekki látið slíkt viðgangast.

Þau mannréttindabrot sem Palestínumenn hafa mátt þola eru í mörgum tilvikum svo alvarleg að í hvert sinn sem maður fer yfir sögu þessa máls verður maður undrandi á því að viðbrögð alþjóðasamfélagsins skuli þó ekki hafa verið meiri og harðari í gegnum tíðina. Í meirihlutaálitinu er til að mynda rifjað upp að mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna eru brotnar, Genfarsáttmálinn er brotinn og aðrar ályktanir Sameinuðu þjóðanna. Engu að síður tökum við skýrt fram í þessu nefndaráliti að við ætlumst líka til þess að þær hreyfingar Palestínumanna sem beitt hafa Ísraela ofbeldi láti af öllum slíkum aðgerðum. Í álitinu er það orðað á þennan hátt, með leyfi forseta:

„Árásum Hamas frá Gaza-svæðinu á byggðir Ísraelsmanna verður að linna. Þá þarf að leiða innri deilumál til lykta. Sættir Hamas og Fatah eru forsenda pólitískrar samstöðu Palestínumanna og í raun forgangsmál að fylkingarnar starfi saman. Meiri hlutinn krefst þess að Hamas-samtökin virði þá samninga sem PLO, Frelsissamtök Palestínumanna, hafa gert fyrir hönd Palestínumanna.“

Þá kunna einhverjir að spyrja: Hvernig getur Alþingi krafist þess að Hamas og önnur samtök láti af ofbeldisverkum? Munu þau eitthvað hlusta á það sem Alþingi Íslendinga hefur fram að færa? Hvernig ætla þá þeir hinir sömu að leggja út af því að Alþingi Íslendinga álykti um réttmæti þess að Palestína verði sjálfstætt ríki? Þetta eru þau skilaboð sem við höfum fram að færa um það hvernig við teljum að málum eigi að hátta á svæðinu og, eins og nokkrir hafa rakið á undan mér, löngu tímabær skilaboð.

Við leggjum á það áherslu, eins og reyndar er komið inn í ályktunina sjálfa, að PLO, Frelsissamtök Palestínumanna, séu hinn lögmæti fulltrúi allrar palestínsku þjóðarinnar í samræmi við ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá 1974. Enn og aftur erum við einfaldlega að vísa í ályktanir sjálfra Sameinuðu þjóðanna. Þetta er þó ekki meira vafamál en svo að Sameinuðu þjóðirnar hafa margsinnis ályktað mjög afdráttarlaust um þetta. Nú les ég stutta klausu úr áliti meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Frelsissamtök Palestínumanna og heimastjórn Palestínu (PNA) hafa gefið vopnaða baráttu upp á bátinn, viðurkennt Ísraelsríki og fallist á landamærin frá því fyrir sex daga stríðið 1967 sem framtíðarlandamæri. Frá árinu 1988 þegar PLO gaf út yfirlýsingu um stofnun Palestínuríkis og ósk um friðarumleitanir sem mundu byggjast á tveggja ríkja lausn hafa 132 ríki viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki.“

Í þessari klausu eru nokkur áhugaverð atriði. Í fyrsta lagi var það töluvert stórt skref að stíga fyrir Yasser Arafat og PLO árið 1988 að viðurkenna landamærin frá 1967 því að þau eru mjög frábrugðin landamærunum sem upphaflega var gert ráð fyrir að mörkuðu skilin milli Ísraelsríkis og ríkis Palestínumanna. Með öðrum orðum, Palestínumenn voru þarna að gefa eftir töluvert mikið land miðað við væntingar sem hljóta að hafa talist réttmætar í ljósi þess að þeir gátu gert ráð fyrir að samhliða stofnun Ísraelsríkis fengju þeir sitt eigið ríki. Það eru liðin 23 ár frá þessari yfirlýsingu. Vel yfir 100 ríki, 132 ríki hafa á þeim tíma viðurkennt sjálfstæði Palestínu svo að þetta verður því miður seint kallað brautryðjendastarf sem við erum að vinna á Alþingi en kannski þeim mun mikilvægara að við förum að bæta þar úr.

Það er áréttað í áliti meiri hlutans að þetta sé eðlileg afleiðing af því hvernig staðið var að stofnun Ísraelsríkis. Það var gert árið 1947 með samþykkt allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og ályktun þess. Sú samþykkt Sameinuðu þjóðanna byggðist á skoðun og niðurstöðum meiri hluta sérstakrar nefndar allsherjarþingsins um skoðun Palestínumálsins undir formennsku Thors Thors, sendiherra og fyrsta fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Íslendingar áttu því stóran þátt í að Ísraelsríki var stofnað á sínum tíma. Þá gerðu menn ráð fyrir því að stofnun Ísraels fylgdi stofnun sjálfstæðs palestínsks ríkis. Síðan eru liðin 64 ár og enn bíða Palestínumenn í nánast fullkominni óvissu með stöðu sína og hafa ekki fengið þau réttindi sem hljóta að teljast eðlileg afleiðing af samþykkt Sameinuðu þjóðanna frá 1947.

Í áliti meiri hlutans kemur fram að við leggjum áherslu á að uppbygging hafi gengið vel í Palestínu. Með leyfi forseta:

„Byggðar hafa verið upp þær stofnanir, innviðir og hagkerfi sem þarf fyrir ríki. Nýlegar úttektir Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans hafa leitt til yfirlýsinga allra þessara stofnana um að palestínska heimastjórnin sé fyllilega fær um að sinna ríkisrekstri.“

Þetta er áhugavert, virðulegur forseti, sérstaklega í ljósi þeirra aðstæðna sem Palestínumenn hafa búið við. Engu að síður hefur þeim tekist að byggja upp stofnanir og hagkerfi sem þessar alþjóðastofnanir telja í stakk búið til að þar megi stofna sjálfstætt ríki á þeim grunni. Með leyfi forseta vitna ég aftur í álit meiri hlutans:

„Meiri hlutinn leggur til að Alþingi skori á Ísraelsmenn og Palestínumenn að leita sátta með friðarsamningum á grundvelli þjóðaréttar og ályktana Sameinuðu þjóðanna sem meðal annars feli í sér gagnkvæma viðurkenningu Ísraelsríkis og Palestínuríkis og leggur til breytingu í þá veru.“

Þetta er það sem ég nefndi í upphafi, að við leggjum áherslu á að menn haldi sig við ákvörðunina frá 1947 um að þarna verði tvö sjálfstæð ríki þar sem íbúar beggja ríkja njóti sjálfsagðra mannréttinda og friðar. Svo segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn bendir á að samkvæmt ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 242 (1967) ber Ísrael að draga til baka her sinn frá svæðum sem voru hernumin í sex daga stríðinu árið 1967. Þá er miðað við grænu línuna svonefndu sem er vopnahléslínan frá árinu 1949.“

Með öðrum orðum, frú forseti, þarna tökum við ekki aðeins undir ályktun Sameinuðu þjóðanna heldur sjálfs öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem ekki hefur verið tilbúið að hleypa hverju sem er í gegn að því er varðar réttindi Palestínumanna. En þarna er til staðar áratugagömul samþykkt um það að Ísraelar skuli draga her sinn til baka af hernumdu svæðunum, samþykkt sem þeir hafa enn ekki farið eftir. Svo er áréttað mikilvægi þess að palestínskt flóttafólk fái að snúa aftur til heimkynna sinna.

Virðulegur forseti. Í ljósi þessarar sögu allrar, aðkomu Alþingis að þessum málum og kannski ekki hvað síst aðkomu Íslendinga að stofnun Ísraelsríkis og því sem hefði átt að vera hinn hlutinn af þeirri ákvörðun, stofnun palestínsks ríkis, fer vel á því að Alþingi Íslendinga skuli nú álykta að Palestínumenn eigi að fá sitt eigið fullvalda ríki. Það eru 64 ár liðin frá því að ályktunin var samþykkt sem leiddi til stofnunar Ísraelsríkis og átti að fela í sér stofnun palestínsks ríkis — 64 ár. Það er töluvert lengri tími en meðalaldur Palestínumanna svoleiðis að meiri hluti þeirra sem fæddust um það leyti sem Ísraelsríki var stofnað og Palestínumenn fengu von um að fá samhliða því sitt eigið ríki er ekki lengur á lífi. Vonandi verður stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna að veruleika áður en miklu fleiri af þessum hópi falla frá. Meira en meðalmannsaldur í Palestínu, 64 ár, hlýtur að vera meira en nógu löng bið til að menn klári það verk sem hafið var, ekki hvað síst að frumkvæði Íslendinga, árið 1947. Því legg ég til að Alþingi samþykki þessa þingsályktunartillögu og viðurkenni sjálfstætt og fullvalda palestínskt ríki.