142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langaði að vekja athygli þingheims á svolítið merkilegum degi sem hefur verið haldinn árlega síðan árið 2008 og er kallaður alþjóðlegur dagur lýðræðis. Því miður hefur Ísland eða íslenska þingið ekki tekið þátt í þessu alþjóðaverkefni en fjöldamargar þjóðir hafa gert það. Þessi dagur á uppruna sinn að rekja til Alþjóðaþingmannasambandsins og þjóðþing víða um heim hafa markað þennan dag með því að fá almenning til að — má ég biðja þingmenn um að hafa hljóð? Össur Skarphéðinsson, hv. þingmaður?

Það er sem sagt þannig að þjóðþing víða um heim hafa gert eitthvað til að reyna að virkja almenning til vitundar um lýðræðisvitund og þroska. Mér þætti mjög við hæfi, sér í lagi út af því að við erum að óska eftir því að finna leiðir til að auka virðingu þessarar stofnunar, að við í það minnsta hefjum vinnu við að undirbúa að halda upp á þennan dag á næsta ári. Það er ljóst að við erum of sein núna, því hann er á sunnudaginn og er haldinn árlega 15. september.

Ég er fastafulltrúi hjá Alþjóðaþingmannasambandinu og var beðin um að lýsa því yfir hvað við ætluðum að gera hér en þurfti að segja að við ætluðum ekki að gera neitt. Ég lofaði að ég mundi vekja athygli á þessu hér í þingsalnum og skora því á forsætisnefnd að koma til samstarfs við Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins og gera eitthvað veglegt á næsta ári.