142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég verð að minnast á þá alvarlegu stöðu sem mörg íslensk heimili eru nú í. Núna eru um þrjú ár síðan mörg heimili fóru í gegnum 110%-leiðina og í gegnum sértæka skuldaaðlögun. Nú er komið að þeim tímamótum að tími þessara aðgerða er liðinn og samningar sem gerðir voru, m.a. um sértæka skuldaaðlögun, eru að falla úr gildi.

Það sem hefur gerst á undanförnum mánuðum er að mörg íslensk heimili fá bakreikninga vegna aðgerða fyrri ríkisstjórnar og er það miður. Það er ekkert leyndarmál að mitt heimili er eitt þeirra sem fengu bakreikning. Ég opnaði á þau mál í fjölmiðlum í ágúst sl. og eftir það hefur fjöldi einstaklinga haft samband og sagt mér frá stöðu sinni, sem er sú að fjöldi fólks hefur fengið senda slíka bakreikninga og tölur hafa verið nefndar frá 3 upp í 12 milljónir í því samhengi.

Mér finnst þessi vinnubrögð fjármálastofnana til háborinnar skammar og ég spyr mig: Hvers vegna ætli þær gangi svona hart fram núna? Ég hugsa með mér hvort það geti verið vegna þeirra aðgerða sem Framsóknarflokkurinn boðaði í kosningunum og gengur nú í að framkvæma, hvort það geti verið að fjármálastofnanir séu að reyna að hífa upp lán áður en gripið verður til aðgerða. Ef það er raunin er það til háborinnar skammar því að þessi lán hafa vaxið í greiðslubyrði undanfarin ár. Mér finnst þessar aðgerðir siðlausar þrátt fyrir að þær geti verið lögmætar.

Ég mun því leggja áherslu á í störfum mínum sem þingmaður að vandað verði til verka varðandi úrlausnir á skuldamálum heimilanna og vera viss um að gengið verði frá þeim með sóma.