142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra hljóti að hafa slegið Íslandsmet í þessari fyrstu stefnuræðu sinni um utanríkismál því að honum tókst í einni ræðu að fara gegn eigin yfirlýsingum, storka fullveldi Alþingis og líka að fara gegn stefnu ríkisstjórnarinnar. Meginboðskapurinn í ræðu hæstv. utanríkisráðherra var að hann hefði tekið ákvörðun án þess að ræða það sérstaklega við Alþingi um að slá af samningahópana og aðalsamninganefndina sem tengjast umsóknarferli Íslands gagnvart aðild að Evrópusambandinu.

Það er næsti bær við að slíta umsókninni og það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar, það er allt annað en hún gaf fólkinu lögmætar væntingar um. Ég geri mér alveg grein fyrir hinum pólitíska veruleika málsins, en orð skulu standa. Forustumenn í stjórnmálum verða að standa við það sem þeir lýsa yfir. Það vill svo til, herra forseti, að í stefnusáttmála ríkisstjórnarinnar segir algjörlega skýrt að gera eigi hlé á viðræðunum og fara eigi í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort viðræðunum verði haldið áfram. Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar, margítrekuð og staðfest, meðal annars af þeim manni sem situr hérna, hæstv. forsætisráðherra, sem ég hef hingað til ekki reynt að öðru en því að vera mann orða sinna. Hæstv. forsætisráðherra sagði það algjörlega hreint út að honum væri slétt sama hvort þjóðaratkvæðagreiðslan yrði á fyrri hluta eða seinni hluta kjörtímabilsins. Hann gaf sterklega í skyn að hún yrði á kjörtímabilinu. Hann talaði aldrei um að hún yrði síðar á öldinni. Menn verða að standa við það sem þeir segja.

Hins vegar kemur mér ekki á óvart miðað við sumarleiðangra hæstv. utanríkisráðherra að hann komi með þennan boðskap hingað í dag. Hann hefur eytt öllu sumrinu í að reyna að brjóta og bramla í kringum umsóknarferlið bersýnilega í þeim tilgangi að ónýta það. Hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir, sem ég tel að sé í trássi við stefnu ríkisstjórnarinnar, að þjóðaratkvæðagreiðsla verði ekki á hans vakt.

Hvað hefur hann fengið út úr þessum lautarferðum sínum í sumar? Það er tvennt. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sent skriflega yfirlýsingu til íslensks fjölmiðils um það að hún líti enn á Ísland sem umsóknarríki. Reyndar hefur íslenska ríkisstjórnin staðfest það líka. Það sem honum hefur síðan tekist er að hann hefur talað frá Íslandi IPA-styrkina upp á 3,8 milljarða. Það er það sem liggur eftir sumarið hjá hæstv. utanríkisráðherra.

Að vísu ætti ég að vera sístur í þeirra hópi sem er að kvarta undan honum. Ég mundi miklu frekar segja að hæstv. utanríkisráðherra sé frá mínum bæjardyrum séð starfsmaður sumarsins. Honum hefur tekist að gera íslensku þjóðinni svo bylt við í þessu máli að við höfum séð að stuðningur við að halda áfram viðræðunum hefur snaraukist. Það hefur snarfækkað í hópi þeirra sem vilja slíta þeim. Ég ætla svo að hlífa þeim ágætu herramönnum sem sitja hér á bekknum við að rifja það upp hvaða áhrif það hafði ásamt öðru á fylgi Framsóknarflokksins í sumar.

Það sem mér finnst verst við vinnubrögð hæstv. ráðherra er hversu óhrein þau eru. Ég er þeirrar skoðunar að menn eigi að tala skýrt. Ræða þín á að vera já, já eða nei, nei. Menn eiga að segja skýrt hvað þeir vilja. Hæstv. utanríkisráðherra segir eitt í Brussel og annað í Reykjavík. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði, hann fór til Brussel. Hann sagði algjörlega skýrt þar hver stefna ríkisstjórnarinnar væri. Hann sagði: Að setja viðræðurnar í hlé, fresta þeim og taka ákvörðun um framhaldið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann talaði svo bert um það þar að fyrsta spurning stækkunarstjórans og fyrsta spurning framkvæmdastjórnarinnar í Brussel var: Hvenær verður þjóðaratkvæðagreiðslan?

Þegar hann kom heim talar hann með allt öðrum hætti. Þá segir hann það algjörlega skýrt að hún verði ekki á hans vakt. Með öðrum orðum, hann er að taka til baka þær lögmætu væntingar sem fólk hefur í krafti stefnusáttmála ríkisstjórnarinnar um að fá að taka ákvörðunina sjálft.

Það sem ég geri líka sterklega athugasemd við gagnvart vinnubrögðum hæstv. utanríkisráðherra er að forustumenn ríkisstjórnarinnar báðir tveir, formenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, hafa lýst ákveðnu ferli sem átti að liggja til grundvallar því að næsta skref yrði stigið. Það var sérstaklega formaður Sjálfstæðisflokksins sem lýsti því þrisvar sinnum yfir í fjölmiðlum. Hann sagði algjörlega skýrt: Það á ekki að taka skref fyrr en úttektirnar tvær liggja fyrir og Alþingi búið að ræða þær, þá taka menn næstu ákvörðun.

Þetta brýtur hæstv. utanríkisráðherra. Hvað segja hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins við þessu? Hingað til hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið flokkur sem ég hef getað treyst, sem þjóðin hefur getað treyst [Hlátur í þingsal.] meira að segja hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni. En ég held að það skipti ákaflega miklu máli að fram komi hver afstaða Sjálfstæðisflokksins er til þessa gernings.

Ég tók eftir því í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að hann sagði ekki að þetta hefði verið staðfest í ríkisstjórninni. Ég hef hingað til litið svo á að orð hæstv. fjármálaráðherra séu merk og gild. Hæstv. fjármálaráðherra lýsti þessu ferli og miðað við það má draga í efa að hæstv. utanríkisráðherra hafi fullt umboð í þessu máli.

Ég geri mér algjörlega grein fyrir hver hinn pólitíski veruleiki málsins er. En menn þurfa að vinna hreinlega. Það eru ekki tvær vikur síðan sá ágæti hæstv. forseti þingsins, sem situr hér yfir aftan mig, sá sig tilknúinn vegna glæfralegra yfirlýsinga hæstv. utanríkisráðherra að gefa um það opinbera yfirlýsingu að menn yrðu að virða fullveldi þingsins. Og hvernig sem meiri hlutar og minni hlutar skiptast á Alþingi Íslendinga er það staðreynd að í þessu mesta utanríkispólitíska máli fyrr og síðar tók Alþingi stefnu. Stefnan var sú að ljúka ætti viðræðum og koma heim með samning og gefið var loforð til þjóðarinnar um að hún fengi að taka afstöðu til þess samnings. Þetta er enn þá hin formlega stefna Alþingis. Fullveldi Alþingis verður að virða. Þess vegna sagði hæstv. forseti: Það verður að leiða fram þingviljann í þessu máli.

Hvers vegna er það ekki gert? Við hvað eru framsóknarmenn hræddir? Getur verið að þeir séu hræddir við að fram komi að í hópi hins stjórnarflokksins sé alls ekki eining um þetta? Það er ekki hægt, herra forseti, að vaða með þessum hætti á skítugum skóm yfir Alþingi. Þegar menn standa andspænis því að gera þarf allt sem hægt er til að styrkja Alþingi og efla virðingu þess þá er þetta ekki leiðin til þess.

Þetta er það sem mér finnst vera verst í málinu. Hvað hefði þá verið eðlilegt miðað við stöðuna, miðað við hvernig skoðanir skiptast hér á Alþingi, miðað við eðlileg vinnubrögð siðaðra manna, miðað við eðlilegar stjórnskipulegar verkhefðir? Það hefði að sjálfsögðu verið að leggja fyrir þingið þingsályktunartillögu um formlega frestun en jafnframt að segja hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla ætti að fara fram um framhald viðræðnanna. Þá hefði þingviljinn verið leiddur fram og virtur, fullveldi Alþingis verið virt og menn hefðu líka staðið við lögmætar væntingar sem tveir forustumenn ríkisstjórnarinnar gáfu þjóðinni.