142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:12]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrslu sína. Nokkrir hv. þingmenn hafa gert það að umtalsefni að síðasta ríkisstjórn hafi verið klofin í afstöðu sinni til Evrópusambandsins og það er vissulega rétt. Mér finnst mikilvægt að fram komi í upphafi míns máls að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur verið andvíg því og er andvíg því að Ísland gangi í Evrópusambandið og byggir það meðal annars á þeim forsendum að Evrópusambandið stjórnist í allt of ríkum mæli af hægri stefnu og markaðshagsmunum. Það má til sanns vegar færa, miðað við þau viðbrögð sem Evrópusambandið hefur sýnt í þeirri fjármálakreppu sem þar ríður yfir, að þar tel ég, eins og ég benti á í ræðu minni í fyrradag, að allt of harðri hægri stefnu hafi verið fylgt eins og til að mynda hjá Olli Rehn sem hefur boðað niðurskurð sem ég þykist því miður sjá líka í stefnu núverandi ríkisstjórnar.

Ég var hins vegar ein af þeim sem studdu þessa umsókn á þeirri forsendu að þetta mál hefur verið stórpólitískt í umræðum hér á landi undanfarna áratugi. Allt frá því að Ísland varð aðili að EES-samningnum hefur þetta mál verið ofarlega á baugi í pólitískri umræðu. Þau rök sem mér hafa fundist skipta mestu þar eru lýðræðisrökin, þ.e. að eðlilegt sé að þjóðin komi að ákvörðun um mál af þessari stærðargráðu, mál sem hefur ólíka fleti, mál sem ekki er hægt að draga upp svart/hvíta mynd af. Miðað við þær nágrannaþjóðir sem við störfum með daglega, hvort sem er á Norðurlöndum eða annars staðar í Evrópu, er eðlilegt að þjóðin fái tækifæri til að taka afstöðu í þessu máli.

Í þessari umræðu hefur líka verið rætt um pólitískan veruleika og það er ljóst að sú ríkisstjórn sem nú situr, og þeir flokkar sem hana skipa, er andvíg aðild. Það er eðlilegt að ríkisstjórnin endurskoði þá ákvörðun sem tekin var á þinginu 2009. En ég geri miklar athugasemdir við þá framgöngu að sú ákvörðun sé þá ekki borin undir þingið, að breyta afstöðunni. Hæstv. utanríkisráðherra ræddi það hér og lýsti þeim vilja sínum að eiga samráð við Alþingi, og nefndi sérstaklega hv. utanríkismálanefnd Alþingis.

Ég tel að önnur sjónarmið hljóti að ráða þegar hæstv. utanríkisráðherra teflir fram lögfræðiáliti. Nú vitum við öll að lögfræði er ekki vísindagrein sem getur gefið einhlít svör, það vitum við að sjálfsögðu. Það er alveg ljóst að gera má ýmsar lagalegar athugasemdir við það lögfræðiálit sem hæstv. utanríkisráðherra lagði fram. Til að mynda er erfitt að setja allar þingsályktanir undir sama hatt. Til eru þingsályktanir þar sem Alþingi samþykkir að stefnt skuli að tilteknum markmiðum. Ef þær ályktanir komast aldrei til framkvæmda er spurning hvert gildi þeirra sé. En í þessu tilviki, þar sem um er að ræða, eins og hér hefur verið nefnt, í fyrsta lagi meiri háttar utanríkismál, í öðru lagi þingsályktun sem hefur beinlínis í för með sér athöfn af hálfu framkvæmdarvalds og stendur yfir í framkvæmd, hlýtur það að teljast undarleg lögfræði — þó að hv. þingmenn hafi haldið öðru fram og telji þetta stjórnskipulag fullkomlega eðlilegt — að þingið komi þá ekki að því að hverfa frá þeirri framkvæmd sem þegar er hafin. Ég tel það beinlínis varhugavert stjórnskipulega að telja ályktanir Alþingis ekki skuldbindandi fyrir ríkisstjórn þó að það hafi ólíkar lögfylgjur þegar við ræðum annars vegar um gildi laga og hins vegar um gildi þingsályktana í afleiðingum fyrir ráðherra.

Ef við setjum nú lögfræðina til hliðar og horfum bara á pólitíkina, hvernig við viljum þróa samskipti framkvæmdarvalds og löggjafarvalds — lögfræðina er hægt að rökræða endalaust, en ég hefði talið að ég og hæstv. utanríkisráðherra værum sammála um að vilja styrkja löggjafarvaldið. Ég man eftir hæstv. utanríkisráðherra sem hv. þingmanni þar sem hann var einatt þeirrar skoðunar í sínum málflutningi hér. Ég er sammála þeim málflutningi og þess vegna finnst mér það pólitískt stórkostlega athugavert að ekki sé tekin ákvörðun um að þessi breytta stefna nýrrar ríkisstjórnar sé borin undir Alþingi með einhverjum þeim hætti sem hv. þm. Birgir Ármannsson fór yfir hér í upphafi. Mér finnst það satt að segja sjúskað að við séum ekki með þennan feril í lagi, mér finnst það.

Ég er sammála hæstv. forseta, Einari Kristni Guðfinnssyni, þegar hann ræddi í tengslum við þetta mál um fullveldi Alþingis. Það er mjög mikilvægt að Alþingi fái eðlileg tækifæri — ekki bara í einhverri örumræðu eins og við eigum hér þar sem ekki er verið að ræða neina tillögu — til að þinglegur vilji birtist þannig að framkvæmdarvaldið geti þá fylgt þeirri stefnu. Þó að ríkisstjórnin sitji í umboði tveggja flokka sem eru í meiri hluta á Alþingi hefur ekki farið fram umræða og ekki hefur farið fram atkvæðagreiðsla um þessa breyttu stefnu. Mér finnst þetta ekki gott. Mér finnst þetta, eins og ég sagði áðan, sjúskað.

Að lokum langar mig að nefna að fyrir kosningar ræddu fulltrúar stjórnarflokkanna talsvert um aðkomu þjóðarinnar. Þó að þar hafi verið blæbrigðamunur á — hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins ræddi um þjóðaratkvæðagreiðslu á fyrri hluta kjörtímabils og hæstv. forsætisráðherra, formaður Framsóknarflokksins, nefndi engar tímasetningar í því en sagði fremur að ekki yrði haldið áfram nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu — teldi ég eðlilegt, og það hefur raunar verið skoðun mín sem ég byggi á þeim lýðræðisrökum sem ég nefndi í upphafi máls míns, að ríkisstjórn og Alþingi tækju þá ákvörðun að leita leiðsagnar þjóðarinnar, að lögð yrði vinna í að ná sátt um það hvernig leita skyldi þeirrar leiðsagnar. Það þarf ekki að gerast með einni spurningu, já eða nei. Við getum haft þá atkvæðagreiðslu ítarlegri þannig að Alþingi fái sem skýrasta leiðsögn.

Ég mundi hvetja til þess og ég þykist skynja það hjá hæstv. utanríkisráðherra að hann hafi fullan vilja, þrátt fyrir það sem á undan er gengið, til að vinna vel með þinginu að þessu máli. Þá hefði ég talið mjög mikilvægt að reyna að ná sátt um það hvernig staðið verði að vinnu við þessi mál. Ég tel mikilvægt að þjóðin komi að málum. En fyrst og fremst er það mjög mikilvægt að Alþingi komi að þeim nýju ákvörðunum sem teknar eru því að ríkisstjórn og framkvæmdarvald situr jú alltaf í umboði Alþingis.