142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[14:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ekkert af þessum upplýsingum verða til, þær eru til. Þær eru allar til allt í kringum okkur. Þetta er bara spurningin um samkeyrslu. Auðvitað er samkeyrsla mikið atriði og gefur mikið vald, en það er hægt að gera það engu að síður. Það væri alveg hægt að tengja saman tölvukerfi bankanna, þau eru m.a.s. öll á einum stað, meira og minna.

Valdið eða misnotkunin er því möguleg og þess vegna held ég að betra sé að gera það svona, að hafa um það löggjöf og að misnotkun sé refsiverð, heldur en ef það gerist einhvern veginn öðruvísi utan löggjafar.

En þetta er slæmur kostur og ég held að við þurfum einhvern tíma að taka almennilega umræðu um persónuvernd almennt og fara í gegnum það hversu mikið er til af upplýsingum um einstaklinginn úti um allt. Ég geri ráð fyrir því til dæmis að ríkisskattstjóri viti nákvæmlega fjárhagsstöðu mína og heimilis míns, nákvæmlega. Reyndar með dálítilli seinkun en upplýsingarnar liggja allar fyrir. Það er borguð staðgreiðsla af laununum mínum í hverjum mánuði og þá vita þeir: Hann er að fá launahækkun þarna, blessaður, o.s.frv. þannig að þeir vita miklu meira.

Það verða ekki til upplýsingar, þær verða samkeyrðar og það væri hægt að misnota þær ef einhver hefði áhuga á því og kæmist í upplýsingarnar — þetta kemst allt fyrir á litlum diski sem menn geta geymt í töskunni sinni — það væri hægt að misnota þær illilega.

Það er nefnilega þannig að upplýsingar gefa vald, upplýsingar eru vald. Þar þurfa menn að gæta vel að því að upplýsingagjöfin sem tæknin gerir okkur kleift að halda utan um á risavaxinn hátt, þróun er svo hröð í geymsluminni, tölvutækni og hraða að hún er allt að því uggvænleg.