142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[15:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hef fylgst með umræðunni og verið að skoða þau plögg sem undir liggja, frumvarpið og nefndarálit meiri hluta og minni hluta. Ég verð eiginlega að segja að mér finnst þetta vera orðið hálfvandræðalegt mál fyrir hið háa Alþingi. Ég skynja ekki djúpstæðan ágreining í sjálfu sér um meginatriði þessa máls, sem eru annars vegar spurningin um þörfina fyrir greinargóðar upplýsingar um skuldastöðu heimilanna og gögn til að vinna með í því sambandi og eftir atvikum fylgjast síðan með framvindunni á einhverju árabili eða til frambúðar eftir atvikum. Og hins vegar að fara ekki offari í slíkri gagnasöfnun þannig að stefnt sé í hættu þeim sjónarmiðum um friðhelgi einkalífs og takmarkanir á slíkri upplýsingasöfnun sem ekki standa þá einhverjir afgerandi ríkir almannahagsmunir til að gera. Flestir viðurkenna bæði þessi sjónarmið að þau þarf að hafa í heiðri og finna einhvers staðar jafnvægi þarna á milli.

Í því ljósi er svolítið vandræðalegt að Alþingi skuli ekki ná að klára málið, mér sýnist ekki vera svo langt í land. Kannski ættu menn að gefa sér aðeins meiri tíma og vita hvort niðurstaðan af því yrði samkomulag um hvernig verður best um þetta búið. Vandinn er til staðar og hann er gamalkunnur. Það rann auðvitað upp fyrir mönnum að þetta voru málefni sem menn höfðu kannski ekki verið mjög uppteknir af þegar þeir héldu að allt léki í lyndi og allir væru ríkir og engin vandamál, sem reyndar var nú aldrei rétt því að tölfræðin sýnir að þó nokkur fjöldi fólks átti í verulegum vandræðum, var skuldsettur og í vanskilum og á vanskilaskrám í hinu meinta góðæri. En að sjálfsögðu kom hrunið og hafði afgerandi áhrif á þessa stöðu og gerði hana verri, bæði vegna verðbólguskotsins, gengisfalls krónunnar og ég tala nú ekki um þegar tekjur lækkuðu og jafnvel sumir misstu atvinnuna.

Við þetta hafa menn glímt og þetta hefur verið viðvarandi glíma, umræðan oft og tíðum tilfinningaþrungin og ekki alltaf kannski sanngjörn gagnvart því sem þó var verið að reyna að gera. Því var til dæmis iðulega haldið fram á síðasta kjörtímabili að ekkert hefði verið gert, bókstaflega ekkert hefði verið gert í skuldamálum heimilanna og ég held að sá málflutningur hafi jafnvel riðið húsum í kosningabaráttunni. Ekki er það nú rétt og ekki er það sanngjarnt en endalaust má deila um hvort hægt hefði verið að gera betur. Höfðum við ráð á því eða átti að setja í meiri forgang að aðstoða skuldug heimili umfram það sem gert var, jafnvel á kostnað framtíðarinnar í þeim skilningi að ríkið rekið með bullandi halla hefði engu að síður tekið á sig frekari byrðar til að aðstoða fólk við að lækka höfuðstól lána eða greiða enn meiri vaxtabætur eða gera eitthvað í þeim dúr?

Nú er það sem betur fer þannig að þau bestu gögn sem við höfum sýna okkur að ástandið hefur lagast talsvert og nýlega hefur verið fjallað um það. Og svo þarf að greina vandann og fá það á hreint um hvað menn eru að tala þegar þeir tala um skuldavanda heimilanna. Eru það húsnæðislánin? Eru það skuldir sem menn hafa stofnað til vegna húsnæðisöflunar? Eru það lán sem stofna rétt til greiðslu vaxtabóta? Um það gilda skýrar reglur. Það eru lán sem tekin eru vegna kaupa á íbúð eða byggingar húsnæðis innan ákveðins tímabils sem tengist húsnæðisfjárfestingunni. Önnur lán, verðtryggð eða óverðtryggð, sem falla utan þess ramma flokkast í þeim skilningi ekki sem húsnæðisskuldir jafnvel þó að menn láti veð í húsi sínu fyrir vegna þess að þá er litið svo á að líklegra en hitt sé að fjármunirnir séu notaðir til annarra hluta. Þeir eru þá ekki teknir í því návígi við húsnæðisfjárfestinguna sem yfirvöld hafa skilgreint að þurfi að vera til þess að um sé að ræða eiginlegar húsnæðisskuldir sem stofni rétt til greiðslu vaxtabóta.

Væri nú gaman að þetta lægi skýrar fyrir hvað varðar kosningaloforð stjórnarflokkanna, sérstaklega Framsóknar. Ég reyndi að fylgjast með þessu, ég fékk það aldrei á hreint hvað verið var að tala nákvæmlega um. — Hvernig er með fundinn þarna í hliðarherberginu, er ekki annað húsnæði laust handa ykkur til að funda í?

Snýr loforðið að því að lækka höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána sem stofna rétt til greiðslu vaxtabóta eða eru það allar verðtryggðar skuldir heimilanna? Það munar um minna en að hafa þetta á hreinu. Ég heyrði aldrei talað skýrt um þetta í kosningabaráttunni, ég veit það ekki enn hvort móðir allra kosningaloforða, loforðið mikla hjá Framsóknarflokknum, heimsmetið sem senn á að slá, snýr að þessu í þrengri eða víðari skilgreiningunni.

Þetta skiptir líka máli vegna þess að allar rannsóknir, gögn Seðlabankans, rannsóknir Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, gögnin frá ríkisskattstjóra, greining á þeim í tímaritinu Tíund o.s.frv. sýna okkur ákveðna hluti og þar á meðal að húsnæðisskuldirnar í þröngri skilgreiningu, þær sem menn hafa bundið sér vegna öflunar húsnæðis, eru ekki nema hluti vandans og að mínu mati augljóslega í ljósi nýjustu upplýsinga minnkandi hluti vandans. Það eru aðrar skuldir, lausaskuldir, yfirdrættir, kortaskuldir sem eru ekki síður erfiðar viðureignar mjög mörgum fjölskyldum.

Þá þarf að átta sig á því hvernig á að taka á vandanum, kemur inn á umræðuna um greiðsluvanda og skuldavanda. En þetta bíður kannski betri tíma að ræða, gerum við ráða fyrir. Nú er upplýst, sé ég, að í nóvembermánuði fái menn að vita hversu mikið lánin þeirra lækka og þá hlýtur að … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÓP): Forseti vill spyrja þingmanninn hvenær honum henti að gera hlé á ræðu sinni. Fyrirhugað er að hefja sérstaka umræðu um stöðuna á leigumarkaði klukkan fjögur.)

Já, það er brýnt mál líka og ég skal bara greiða fyrir því með því að gera hlé hér og nú.

(Forseti (ÓP): Er þá gert hlé á umræðunni um 5. dagskrármálið og málinu frestað um sinn.)