142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

48. mál
[18:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Varðandi frumvarpið þá er það, eins og hér hefur komið fram, svona bland í poka, tæknilegar lagfæringar, sumar hverjar sjálfsagðar eins og að færa ákvæði lífeyrissjóðslaganna um hvernig fjallað er um endurskoðun til samræmis við gildandi lög önnur sem það mál varða, lög um endurskoðendur, ársreikninga og bókhald og hvað það nú er þar sem nýlegt orðalag er komið til sögunnar eftir heildarendurskoðun á þeim lagabálki sem loksins hafðist í gegn hér undir lok síðasta kjörtímabils eftir margar atrennur. Að sjálfsögðu er eðlilegt að löggjöfin sé í samræmi að þessu leyti. Að miklu leyti er frumvarpið slíkar tæknilegar uppfærslur eða lagfæringar og jafnvel þó að skammur tími sé til stefnu þá ætla ég ekki að fara að setja hornin í það að frumvarpið verði afgreitt ef allir eru sammála um það. Ég ætla að vona að þau örlög eigi ekki eftir að verða mín að ég gerist talsmaður þess eða liðsmaður að drepa mál bara til að drepa þau. Það var nóg gert af því á síðasta kjörtímabili. Ég ætla að vona að ég rati aldrei í þá ógæfu að leggjast í það eyðileggingarstarf sem þá var unnið. Ég fyrir mitt leyti er tilbúinn til að skoða meira og minna öll efnisatriði frumvarpsins og tel mig í sjálfu sér geta tekið afstöðu til þess á tiltölulega stuttum tíma hvort þau megi ekki hljóta þá afgreiðslu nú úr því að frumvarpið er fram komið.

En ég hef líka fullan skilning á því að þingmenn vilji fara betur ofan í einstök atriði. Menn vilja stíga varlega til jarðar varðandi ýmsa hluti, eins og allt sem viðkemur fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna og fyrir því eru gild rök. Aðrir hafa nefnt breytingar sem tengjast starfsendurskoðun eða rétti lífeyrissjóða til að skilyrða greiðslu örorkulífeyris við það að sjóðfélagi fari í endurhæfingu enda liggi álit trúnaðarlæknis lífeyrissjóðs fyrir og allt það. Þar er reyndar líka um samræmingaratriði að ræða, ef ég veit rétt, þar sem sumir lífeyrissjóðir í landinu hafa slíkar heimildir í lögum.

En aðalefni frumvarpsins er auðvitað framlenging ákvæðis til bráðabirgða 6 í gildandi lögum um að bæta einu ári við þar sem lífeyrissjóðunum er heimilt að gera upp með meira en 10% halla eða skekkju milli skuldbindinga og eigna. Það kemur mér sannarlega ekki á óvart, hæstv. núverandi fjármálaráðherra er í kunnuglegum sporum að leggja til að við fleytum þessu um eitt ár enn með þeim hætti. Ég er sammála því að það beri að gera, sérstaklega í ljósi þess og í voninni um að það dugi þá, þ.e. ég held að æskilegt sé að hafa þrýsting á um að menn reyni til þrautar að ná utan um þau stóru lífeyrissjóðamál sem hér hefur aðeins verið tæpt á, og er nú ekki lítið undir. Ánægjulegt er að heyra að framvinda hafi verið í þeim efnum að undanförnu eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra. Það er satt best að segja eitt af hinum stærri málum sem varðar umhverfi á vinnumarkaði og stöðu fólks í kjaralegu tilliti og varðandi undirbúning undir efri árin að við komumst til lands með það risavaxna verkefni, að ná utan um samræmingu ávinnslu lífeyrisréttindanna, helst þannig að þau verði sem einsleitust yfir allan vinnumarkaðinn og það dragi úr þeim skýra mun sem hefur verið á stöðu opinbera lífeyrissjóðakerfisins og almenna lífeyrissjóðakerfisins. Svo lengi sem sá munur er við lýði verður þetta jarðsprengjusvæði.

Í raun og veru er best að segja hlutina heiðarlega og eins og þeir eru, herra forseti. Við erum búin að sitja ofan á þessu pottloki undanfarin ár. Það kraumar undir og stundum hefur legið við að lokið springi af pottinum. Þetta kemur reglubundið upp í tengslum við kjaraviðræður og hefur ítrekað minnt á sig þegar ýmsar breytingar, hvort sem það er í almannatryggingakerfinu eða skattalegu tilliti sem hafa inngrip inn í þetta samhengi, koma upp og gjarnan þá þannig að talsmenn almenna vinnumarkaðarins gera mikið mál úr þeim skýra mun sem er á hinni opinberu ábyrgð á lífeyrisréttindunum í opinbera kerfinu. Þetta hefur komið upp í sambandi við þátttöku lífeyrissjóðanna í einhverjum samfélagslegum verkefnum og þá segja menn sem svo að það sé einfalt fyrir opinbera lífeyrissjóðakerfið að ákveða eitthvað slíkt vegna þess að það sé þá bara viðbótarávísun á ríki og sveitarfélög en það geti þýtt skerðingu réttinda hjá lífeyrissjóðum án slíkra ábyrgða sem eiga forsvarslaust að standa undir sér sjálfir.

Nú er það auðvitað þannig að nýrri hluti hins opinbera lífeyrissjóðakerfis á að gera það. Menn mega ekki hörfa frá þeirri víglínu að A-deild LSR á náttúrlega að standa undir sér sjálf. Það er uppgjörið á fortíðarvandanum í B-deildinni sem er hins vegar klárlega stóra framtíðarviðfangsefnið og skuldbindingin sem þar bíður.

Varðandi fjárfestingarheimildirnar þá togast í manni á köflum tvö sjónarmið. Annars vegar er ég sammála því að farið sé yfir það hvaða mögulegar breytingar og eftir atvikum rýmkanir eru skynsamlegar og þó ábyrgar til að auðvelda lífeyrissjóðunum að fjárfesta fé sitt við þær þröngu aðstæður sem þeir búa við, en um leið vilja menn fara varlega og ekki ganga of langt í burtu frá því að tryggja örugga ávöxtun og áhættudreifingu o.s.frv.

Ég hygg að þessi framlenging sé eðlileg. Það væri eiginlega alveg þvert á allar aðstæður að draga núna úr heimild lífeyrissjóðanna að þessu leyti að geta átt í sameignarfélögum eða hvað það nú er. Eins hefur sú hugmynd verið uppi um að rýmka rétt þeirra til að eiga í óskráðum bréfum á hliðarmarkaðnum eða hvernig það nú væri.

Varðandi það að lífeyrissjóðunum sé heimilt að taka við greiðslu skuldabréfa frá aðilum sem greiða vegna starfsmanna sinna inn í lífeyrissjóði ríkis og sveitarfélaga og inn á framtíðarskuldbindingar þar sem þeir eru þá ábyrgir fyrir sem launagreiðendur — það eru væntanlega ýmsir látnir taka lífeyrisskuldbindingar sínar þegar þær breytingar urðu — þá lítur það mjög sakleysislega út en maður vildi gjarnan vita hvert umfangið yrði á slíku. Yrði það til þess að staða þeirra sjóða sem þannig væru settir yrði umtalsvert frábrugðin hinum sem ekki tækju slíkar skuldabréfainngreiðslur? Nokkur slík álitamál geta komið upp þegar betur er að gáð í sambandi við þetta en að sjálfsögðu má fara betur yfir það í nefnd. Og í ljósi þess að ég hef aðstöðu til þess að spyrjast fyrir um slíkt eða kafa ofan í það þar skal ég ekki þreyta menn með frekari ræðuhöldum um það.

Herra forseti. Við fljótlega skoðun á málinu er ég á því að það sé að uppistöðu til engin ástæða til að láta það vefjast mikið fyrir sér. Þetta eru að langmestu leyti tæknilegar og minni háttar lagfæringar. Það er augljóst að brýnt er að afgreiða meginefni frumvarpsins. Ég geri ráð fyrir að þó að að sjálfsögðu sé framlenging ákvæðisins á grundvelli áramóta, þá þykist ég vita að vandinn sé staða stjórna lífeyrissjóðanna núna á haustmánuðum, sem yrðu að óbreyttum lögum að fara í það að gera tillögur um hækkuð iðgjöld nema búið sé að breyta lögunum eða skapa nýjan lagagrundvöll fyrir því að framlengja þetta um meira en 10% halla ákvæði.