143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

virðisaukaskattur.

166. mál
[17:14]
Horfa

Flm. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei. Ég er algjörlega ósammála hv. þingmanni um það. Ég er ekki tilbúinn til að skrifa upp á að þetta sé óþarfabúnaður og eyði dýrmætum gjaldeyri við innflutning á þessum tækjum, eins og hv. þingmaður gefur í skyn.

Ég get ekki hugsað mér að íbúar á köldum svæðum, sem borga háan húshitunarkostnað eins og ég hef hér gert að umtalsefni og er í greinargerðinni, þurfi áfram að leggja sitt af mörkum og eyða gjaldeyri með því að kaupa varmadælur til þess að spara sér húshitunarkostnað upp á 50–60% um ókomin ár.

Ef hv. þingmanni er mest umhugað um að eyða ekki dýrmætum gjaldeyri, sem ekki er allt of mikið til af, held ég að það séu til betri leiðir til að spara hann en fram kemur í því sem hann segir, þ.e. með umframorkunni sem til er. Vonandi verður þá hægt að selja þá umframorku öðrum sem geta þá hugsanlega notað hana til að skapa verðmæti og gjaldeyristekjur.