144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

gerð framkvæmdaáætlunar til langs tíma um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins.

39. mál
[16:23]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu, sem ég er 1. flutningsmaður að, um gerð framkvæmdaáætlunar til langs tíma um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Með mér á málinu eru allnokkrir meðflutningsmenn.

Tillagan felur í sér í grófum dráttum að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra að undirbúa og leggja fyrir þingið framkvæmdaáætlun til langs tíma um skipulag og uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Við leggjum til að sú tillaga komi fram í þinginu eigi síðar en á vorþingi 2015 og að samfara því verði lögð fram nauðsynleg lagafrumvörp svo festa megi fyrirkomulagið í sessi.

Hvers vegna leggjum við fram þessa tillögu? Það hefur verið mikil umræða í samfélaginu um heilbrigðismál að undanförnu. Þegar kafað er ofan í þessi mál sér maður fljótlega að það er svolítið erfitt að átta sig á heildarumgjörðinni, okkur vantar yfirsýn. Ef maður breytir einni hlið jöfnunnar hefur það áhrif á allt kerfið. Þess vegna teljum við mikilvægt að skoða kerfið í heild. Ef við tökum til dæmis hjúkrunarrými, mat á því hversu mörg hjúkrunarrými þurfi að vera til staðar, er það háð því hvernig heilsugæslan starfar, hvaða möguleikar eru á að fá heimahjúkrun, hvaða möguleikar eru til þess að leggjast inn til hvíldar á hjúkrunarheimilum, í svokallaðar hvíldarinnlagnir. Jafnframt skiptir þetta allt máli þegar við skoðum framtíðaruppbyggingaráform á Landspítalanum. Eins og staðan er í dag vantar okkur hjúkrunarrými og einstaklingar sem eru með mat til þess að fara inn í slík rými, eru á spítölunum en ættu ekki að vera þar ef til staðar væri önnur þjónusta. Það er því algjörlega ljóst að okkar mati að við verðum að horfa á hlutina í heild. Þess vegna leggjum við tillöguna fram.

Aldurssamsetning þjóðarinnar gefur okkur tilefni til þess að bregðast við. Eftirspurn eftir þjónustu heilbrigðiskerfisins mun aukast verulega á næstu árum. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands mun Íslendingum 67 ára og eldri fjölga úr 36 þúsund í 54 þúsund frá árinu 2013 til 2025 eða um 50%. Öldruðum mun fjölga á næstu 15 árum, úr um það bil 2 þúsund í 4 þúsund. Þetta mun leiða til aukins kostnaðar nema breyting verði á skipulagi, samhæfingu og tækni.

Markmið okkar með tillögunni er að við tökumst á við þetta stóra og kostnaðarsama verkefni á ábyrgan hátt þannig að við nýtum skattfé almennings sem best og að þjónustan verði sem skilvirkust. Við teljum ljóst að ef ekkert verður að gert og áherslur varðandi fjölda hjúkrunarrýma miðað við fólksfjölda verði óbreyttar, verðum við að byggja hundruð hjúkrunarrýma á næstu árum. Við þurfum að ganga skipulega til þess að efla heimahjúkrun og heimaþjónustu þar sem því verður við komið og að endurskilgreina kröfur sem gerðar eru til þjónustu og aðbúnaðar á hjúkrunarheimilum landsins.

Við leggjum til að lögð verði fram framkvæmdaáætlun í þinginu og hún fái afgreiðslu hér. Við horfum þar til nokkurra fyrirmynda þar sem slíkt vinnulag er til staðar. Framkvæmdaáætlun eins og hér er talað um er að finna í ýmsum lögum og í stjórnsýslunni. Við erum með framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks, framkvæmdaáætlun í barnavernd, en sú áætlun sem við horfum helst til er samgönguáætlun á grundvelli laga um samgönguáætlun, nr. 33/2008. Nokkur reynsla er af framkvæmd og framlagningu hennar. Samkvæmt því fyrirkomulagi er um að ræða tvær áætlanir, annars vegar áætlun til fjögurra ára og hins vegar til tólf ára. Fjögurra ára áætlunin er endurskoðuð á tveggja ára fresti þannig að ávallt sé í gildi áætlun til fjögurra ára. Í henni skal vera til áætlun fyrir hvert ár tímabilsins og fyrir hverja stofnun. Í tólf ára áætlun komi fram stefnumarkandi atriði til lengri tíma. Auðvitað er þetta ekki nákvæmlega sambærilegt en þetta er aðferðafræðin sem við leggjum til. Við teljum rétt að miða við tvær áætlanir, annars vegar til lengri tíma og stefnumarkandi og hins vegar til skemmri tíma.

Við teljum mjög mikilvægt að faglegt starf liggi að baki áætlun sem þessari. Ljóst er að leggja þarf í talsverða greiningarvinnu sem þarf að vera viðvarandi. Það þarf að taka tillit til tölfræðinnar, þ.e. mannfjöldaspáa, og jafnframt rannsókna á aldursþróun og mismunandi aldursskiptingu íbúa sveitarfélaga. Byggðasjónarmið koma auðvitað líka til skoðunar.

Lögin sem við teljum að þurfi að breyta af þessu tilefni eru lög um heilbrigðisþjónustu, en samkvæmt þeim er markmiðið að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar heilsu.

Við vonumst svo sannarlega til þess að tillagan verði tilefni þess að ráðherra vinni og leggi fyrir þingið framkvæmdaáætlun sem og breytingar á þeim lögum sem ég gat hér um.

Frú forseti. Við þekkjum það öll hversu mikill áhugi er á því hjá landsmönnum öllum að efla heilbrigðiskerfið. Manni finnst stundum að við séum að reyna að stoppa í göt á mörgum stöðum í einu. Þessi tillaga hefur það markmið að við reynum að ná heildarsýn. Verkefnið fram undan er stórt en það er gott og langbest að vera með plan, átta sig á því í upphafi hvert skuli haldið þannig að við vinnum markvisst að því að efla heilbrigðiskerfið. Við gerum það á opinn hátt með því að leggja fram áætlun í þinginu sem fær hér umfjöllun og umræðu og verður vonandi samþykkt.

Frú forseti. Ég legg til að málið gangi til velferðarnefndar og vonast til þess að það njóti þar brautargengis og fái jákvæða afgreiðslu.