145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Á vef Fréttablaðsins í morgun birtist frétt þar sem talað var um sýni og sönnunargögn er varða kynferðisbrot, en sýni og sönnunargögn á neyðarmóttökunni eru geymd í tvo mánuði, eða níu vikur, og svo er þeim eytt. Aðstaða neyðarmóttökunnar er ekki boðleg fyrir svo viðkvæman málaflokk og erfið mál eins og raun ber vitni. Neyðarmóttakan hefur aðstöðu í litlu herbergi á Landspítalanum í Fossvogi. Sönnunargögn og sýni, svo sem nærföt, eru sömuleiðis geymd í skáp í því herbergi.

Verkefnisstjóri neyðarmóttökunnar brýnir hversu mikilvægt það sé fyrir þolendur að kæra brot sem fyrst. Hann segir það hafa sýnt sig að þeim málum farnist betur í kerfinu þar sem ákvörðun er tekin snemma. Það eru til dæmi um að unglingsstúlkur hafi fallið frá kæru vegna nauðgunar þegar ljóst var að sönnunargögnum hafði verið eytt. Að sjálfsögðu á ekki að eyða sönnunargögnum á meðan fyrningarfrestur hefur ekki gengið í gildi. Það gerist sjaldan að manneskjur taki ákvörðun löngu seinna, en það er ekki annarra að ákveða þann tíma sem fórnarlömb þurfa. Lög eiga að ná yfir alla.

Ég vil því hvetja bæði lögregluna og neyðarmóttökuna áfram í starfi og leggja mikla áherslu á að aðstaða móttökunnar verði bætt. Þar geta stjórnvöld komið að. Þá þarf greinilega að endurskoða regluverk hvað varðar geymslu sönnunargagna því að þetta verkferli á ekki að vera til þess að þrýsta á þolendur kynferðisafbrota til að kæra. Þeir eiga að fá að taka ákvörðunina sjálfir og það er okkar að hafa til það lagaumhverfi og þá aðstöðu sem fólk þarf á að halda.


Efnisorð er vísa í ræðuna