145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[14:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Hv. þingmanni er mikið í mun að ræða þá kynningu sem stjórnvöld settu fram í síðustu viku um mat Seðlabankans á niðurstöðu nauðasamninga slitabúanna við kröfuhafa sína, ræða það í tengslum við það mál sem hér er til umræðu sem er lagatæknilegt atriði og miðar einungis að því að gera það raunhæfan kost fyrir slitabúin að ljúka nauðasamningum sínum kjósi þau að gera það. Þau geta auðvitað enn farið leið stöðugleikaskatts ef þau kjósa það.

Ég held að hv. þingmaður grafi sér gröf, ef svo má að orði komast, ef hann ætlar að reyna að halda því fram að stjórnmálamenn geti á einhverjum tímapunkti staðhæft og svarað fyrir það hvað gerist í framtíðinni með óyggjandi hætti. Það er ekki rétt, sem fram kom í máli hv. þingmanns, að ég hefði lýst því að ég hefði ekki neina sannfæringu fyrir því að stöðugleikaskatturinn hefði getað leyst málin eins og til stóð. Ég sagði hins vegar að það þyrfti að vera hægt að svara því með óyggjandi hætti. Ég tel að aldrei sé hægt að svara því með óyggjandi hætti hvaða afleiðingar hvor þessara leiða hafi inn í framtíðina. Ég segi hins vegar og stend við það að eins og málið hefur verið kynnt, eftir mat Seðlabankans, eftir mat sérfræðinga í hagstjórn og öðru, þá líður mér ágætlega með það og ég tel að sú leið sem hefur verið kynnt taki á þeim grundvallarvanda sem blasir við þjóðinni þegar erlendir kröfuhafar fara hér út (Forseti hringir.) með sínar krónur, greiðslujafnaðarvandanum, að þessi leið taki á honum.