145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:29]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason eyddi nógu löngum tíma með mér í flokki til að vita að ég er ekki vitund pirruð. Ég vil bara að við ræðum þessi mál málefnalega. Ég leitaðist við að gera það í ræðu minni og hefði gjarnan óskað eftir því að fá andsvör (Gripið fram í.) í takt við það.

Úr því að hv. þingmaður kýs að dvelja í fortíðinni leyfi ég mér að minna á að ástæða þess að við sjáum fram á einhvern árangur í þessu máli er að þrotabúin voru sett undir höft. Eigum við að rifja það upp, hv. þingmaður? Eigum við að rifja það upp að þingmenn Sjálfstæðisflokksins börðust beinlínis gegn því og töldu að það væri verið að herða á höftunum með því að færa þrotabúin undir höft sem gerir okkur það kleift núna að ræða þessi mál yfir höfuð? Hv. þingmenn Framsóknarflokksins á þeim tíma treystu sér ekki til að styðja málið enda voru þeir ekki reiðubúnir til að taka þátt í neinni sameiginlegri lausn á málunum. (Gripið fram í: Ég er sammála.) (ÁsmD: Þessari góðu lausn sem er hér …) Það væri ágætt að heyra hvort hv. þingmenn treysta sér til að styðja þetta núna (Forseti hringir.) þegar þeir líta um öxl og viðurkenna að það voru ákveðin mistök að styðja það ekki. Mér þætti gaman að heyra það ef menn vilja endilega dvelja í fortíðinni, sem ég hef engan sérstakan áhuga á. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)