145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:04]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Stefna okkar var og hafði lengi verið og birst í framkvæmd að það væri algerlega óumflýjanlegt að verðfella verulega krónueignir útlendinga læstar á bak við gjaldeyrishöftin í hagkerfinu. Það var byrjað á því strax árið 2010. Það var byrjað að kaupa eignir á niðursettu verði inn í landið eins og Avens-viðskiptin og það var farið að bjóða upp aflandskrónur á verulega niðursettu gengi. Það var gengið út frá því að einhvers konar útgönguskattur eða annað form skattlagningar yrði við lýði þegar losað yrði um þessar eignir út úr búunum. Til þess að það væri m.a. hægt færðum við eignir gömlu bankanna inn fyrir höftin. Hv. þingmaður þarf ekkert annað en að kynna sér það sem var í gangi og var í framkvæmd á síðasta kjörtímabili til að sjá að sú ríkisstjórn var með það algerlega á hreinu að þjóðarbúið (Gripið fram í.) réði ekki við að skipta þessum gríðarlegu krónustöðum út á fullu gengi. (VigH: Segðu nú satt.) Þetta er ósköp einfaldlega svona.

Frú forseti. Hversu mikið sem hv. þingmaður fer hér með vitleysu og staðlausa stafi þá verða svör mín byggð á þeirri bestu þekkingu sem ég hef um þessi mál.

Forseti. Er ekki í lagi að hafa það þannig?