145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:09]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er líka þannig með reikningsdæmi að maður verður að leggjast yfir forsendurnar sem að baki þeim eru. Ef við tökum þessi stöðugleikaframlög og skoðum samsetningu 379 milljarða greiðslna þá eru inni í þeim raun og veru bæði Íslandsbanki og Arion banki metnir á fullu verði, að þeir seljist á fullu nafnverði. Það er eitt af því sem mætti mjög gagnrýna í þessu, að stjórnvöld skyldu ekki reyna að leggja sjálfstætt mat á það hvers virði þeir væru líklegir að vera eða verða og setja þá niður fótinn og segja: Nei, við tökum þetta ekki fullgilt. Við reiknum ekki bankana nema með margfaldaranum 0,7 eða 0,8. Skyldu bankarnir vera líklegir til þess að seljast á fullu verði í dag eða á næstu vikum eða mánuðum? Er líklegt að einhver labbi inn og borgi 185 milljarða fyrir Íslandsbanka? Ég verð því miður að segja nei. Það er meðal annars vegna þess að bankinn er með mikið eigið fé og hann þarf auðvitað að vera það. Þeir lögðu af stað mjög sterkt fjármagnaðir og hafa síðan hagnast ágætlega. En á sama tíma er grunnrekstur bankans veikur og afkoman undanfarin ár hefur fyrst og fremst byggst upp á verðmæti uppfærslu eignasafna. (Forseti hringir.) Þannig banki er ekki líklegur til að seljast á fullu verði.