149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í Morgunblaðinu í morgun skrifaði ég grein um kröfur háværustu verkalýðsfélaganna og umræðuna í landinu síðustu vikur. Það var eins og við manninn mælt. Ég hafði rétt nefnt að það væri ekki fyrir hvern sem er að gagnrýna kröfurnar vegna þess að sá hinn sami má nefnilega eiga von á því að vera samtvinnaður við hið illa auðvald, sakaður um að vinna gegn láglaunafólki og annað í þeim dúr, og það hafði orðið raunin strax fyrir hádegi.

Það er ekki nokkur leið fyrir fólk að taka þátt í umræðunni, skiptast á skoðunum, ræða lífskjör og laun, ef umræðan snýst einungis um fúkyrði og tilfinningar og hefðbundnar rökræður og umræður um staðreyndir eru með öllu bannaðar.

Það sem ég hef raunverulegar áhyggjur af er að nú keppast sumir við að stilla fólki upp í andstæðar fylkingar, óvini, án þess að byggja umræðuna á skynsamlegu samtali sem myndi reynast öllum launamönnum í landinu til góðs. Það er nefnilega ekkert fjær sanni en að atvinnurekendur séu óvinir launamanna. Hvor getur ekki lifað án hins og hagsmunir beggja er að rekstur fyrirtækja gangi vel.

Ég er viss um að langstærstur hluti launþega í landinu vill að skynsemin hafi yfirhöndina þar sem hægt er að ræða um komandi kjarasamninga af yfirvegun. Það er nefnilega einungis það sem mun tryggja öllu launafólki í landinu betri lífskjör. Aukinn kaupmáttur og stöðugleiki er nefnilega alls ekki sjálfsagður.