149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[18:16]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið heils hugar undir með hv. þingmanni að fullt tilefni er til að skoða stafræna friðhelgi í talsvert stærra samhengi en við gerum í þessu frumvarpi. Okkur finnst hins vegar, flutningsmönnum frumvarpsins, að við höfum beðið nógu lengi eftir því að fá heildstæða löggjöf gegn stafrænu kynferðisofbeldi til að láta það ekki stoppa okkur í þessu tilfelli. Hvað varðar jafnaldra og einstaklinga sem eru undir þessum aldri þá vitum við líka að það eru fleiri vandamál í almennu hegningarlögunum hvað brot af þessu tagi varðar. Slík brot geta jafnvel átt við jafnaldra undir 18 ára sem eru að senda hvert öðru myndir eða eitthvað slíkt. Vakin hefur verið athygli á þessu þó að þessar greinar nái ekki yfir það og séu ekki til þess ætlaðar að þannig réttarástand geti skapast, þ.e. að börn undir 18 ára aldri geti lent í því að vera ákærð fyrir sjálfviljugan verknað sín á milli. Það er eitthvað sem vissulega þarf að skoða og raunar eru almennu hegningarlögin komin vel til ára sinna og svo sem tilefni til almennrar heildarendurskoðunar á þeirri löggjöf enda er hún orðin mjög, mjög gömul.

Að öðru leyti þakka ég hv. þingmanni fyrir stuðninginn og lýsi okkur enn og aftur tilbúin til að taka við öllum ábendingum. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við vinnum þetta mál í sem mestri sátt sem flestra þingmanna á þessu þingi. Það er löngu kominn tími til að þessi verknaður verði glæpsamlegur hér á Íslandi.