150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Afkoma heimila í fimm sjávarbyggðum sem byggja á uppsjávarfiski er í hættu. Niðurstöður bergmálsmælinga rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar á stærð loðnustofnsins eru vonbrigði og leggur Hafrannsóknastofnun til að engar loðnuveiðar verði leyfðar í byrjun næsta árs. Ef við tökum mið af því sem gerðist fyrr á árinu þýðir þessi niðurstaða um 25–30 milljarða tap í útflutningstekjum.

Gildandi aflaregla byggir á því að skilja eftir 150.000 tonn af hrygningarloðnu, sem er talin með 95% líkum. Hún fannst reyndar við Grænland en í of litlu magni og of ung loðna þannig að ekki er gert ráð fyrir loðnuveiði fyrr en í fyrsta lagi 2021. Þessi niðurstaða er mikil vonbrigði fyrir okkur öll, sérstaklega fyrir fyrirtækin og byggðirnar sem byggja afkomu sína að stórum hluta á uppsjávarveiðum. Tekjutap fimm sveitarfélaga vegna loðnubrests á þessu ári er áætlað u.þ.b. 500 milljónir og lækkar landsframleiðslu um 0,6%. Talið er að loðnubresturinn hafi áhrif á tæplega 300 heimili í Vestmannaeyjum. Þetta eru stóru vandamálin sem þessi þjóð stendur frammi fyrir, tekjumissir þjóðarbúsins, og ég hef áhyggjur af því.

Það er þó ekki svo að það séu allar fréttir slæmar því að í morgun bárust fréttir af því að nýtt flugfélag væri að hefja áætlunarflug frá Íslandi. Ég verð bara að segja eins og er sem Suðurnesjamaður að ég hlakka til að sex nýjar vélar komi í flotann og ég vona svo sannarlega að það flugfélag fái fljúgandi start.