151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[15:45]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru áhugaverð svör. Vitaskuld er staðan ekki sú þegar engin þyrla er til taks, og sú hefur verið staðan dögum saman, að öryggi almennings sé tryggt eins og best verður á kosið eins og dómsmálaráðherra lýsir hér. Staðan er einfaldlega allt önnur og þetta er að gerast á hennar vakt. Þetta er að gerast á vakt ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem fer með pólitíska ábyrgð á þessum málaflokki.

Hitt er síðan það að ráðherrann lýsir því yfir að það sé eðlilegt af hennar hálfu að stíga inn í þetta samtal og þessar kjaraviðræður. Það er auðvitað alveg rétt að það á að forðast í lengstu lög. En ráðherra sem stendur hér á föstudagssíðdegi og er að boða lagasetningu vegna þess að engin þyrla er til taks hefði kannski mátt huga að því fyrr hvernig þennan vanda hefði átt að leysa. (Gripið fram í: Heyr, heyr. )