151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[16:14]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek heils hugar undir það og ég hefði auðvitað viljað sjá að samningar hefðu náðst milli þessara aðila. Það var hræðilega sorglegt að horfa upp á það í fréttum í gær að það hefði ekki tekist. Ég veit ekki betur en að langt hafi verið gengið í þeim efnum. En ég ætla þá bara að segja að ég óska hv. allsherjar- og menntamálanefnd góðs gengis við að vinna hratt og vel og kafa ofan í málið. Ég vona að við náum að afgreiða málið hratt og vel í dag.

Hv. þingmaður ræddi kaup og kjör og hvað væri sanngjarnt og hversu langt ætti að ganga. Hann nefndi líka hjúkrunarfræðinga. Ef við í þessum sal ætlum að fara inn á þá braut að ræða hvað séu hæfileg laun fyrir hvaða stéttir, má svolítið velta fyrir sér annars vegar þeirri stétt sem núna er í verkfalli og hins vegar öðrum stéttum sem hafa gert það sama, og bera saman laun þessara aðila og hvaða þrýstingur hefur myndast hjá þeim. Ég tek undir að hér er um þjóðaröryggi að ræða. Þess vegna vona ég innilega að okkur takist að afgreiða þetta mál hratt og vel, eins ömurlegt og mér finnst að þurfa að setja lög á verkföll. Það er auðvitað algjörlega ömurlegt.