151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[16:43]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að vona að dómsmálaráðherra sé hér með útúrsnúning því að alvarlegt væri það ef hún teldi málið snúast um það sem er að gerast akkúrat í dag og engan annan dag þar á undan. Vitaskuld hefur þetta verið í pípunum ansi lengi. Það hefur horft við okkur ansi lengi að svona gæti farið og á því ber hún pólitíska ábyrgð. Það er umhugsunarvert, og ég vil leyfa mér að segja að það er óþægilegt, að heyra ráðherrann tala um það, þegar við erum að tala um öryggi fólks, hvort dagur til eða frá skipti máli í því samhengi. Það gerir hann. Dagur til eða frá er ekki boðleg röksemdafærsla þegar við erum að tala um öryggi fólks. Hæstv. ráðherra talar um að í því felist meðalhóf af hennar hálfu að standa hér í dag með frumvarp í höndunum en hefur sama dag lýst því yfir að á engum tímapunkti hlustaði hún á sjónarmið flugvirkja, sem hefði kannski verið meira í anda meðalhófs og mun mýkri leið að leggja við hlustir og heyra rökin.

En svo það sé sagt aftur þá styð ég þetta mál. Þingflokkur Viðreisnar styður þetta mál einfaldlega vegna þeirra hagsmuna sem hér eru í húfi. Það þarf að bregðast við strax í ljósi alvöru málsins. En ég beini því til dómsmálaráðherra að hafa það í huga og tala ekki með þeim hætti að þetta sé einhver staða sem kom upp í morgun.