151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[16:48]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Það er eiginlega þannig þegar maður hlustar á hæstv. ráðherra að það er ástæða til að minna hana á að hún hefur verið stödd í ráðuneyti dómsmála í nokkurn tíma og hennar flokkur hefur verið með það ráðuneyti á sínu forræði enn lengur. Ef það er hennar skoðun að pólitísk ábyrgð hennar á því að öryggismálum þjóðarinnar hafi verið stefnt í þá hættu sem við horfum upp á hér í dag sé á ábyrgð stéttarinnar, en ekki ráðherrans sem fer með málaflokkinn allan, er það með nokkrum ólíkindum. Það er ekki þannig að þessi vandi hafi orðið til í gær, ekki í síðustu viku, ekki í síðasta mánuði og ekki á síðasta ári. Þessi staða hefur teiknast upp og niðurstaðan er á hennar vakt og á henni ber dómsmálaráðherra pólitíska ábyrgð. Þingið er statt hér í dag að samþykkja vonandi frumvarp til að slökkva eld sem hefur fengið að loga glatt á hennar vakt. Það er staðan og hún er alvarleg. Það er ósk mín að við komumst lengra með þetta samtal og getum tryggt það að ráðherra slökkvi þennan vanda og komi okkur upp úr því að við séum að horfa á þessa stöðu til lengri tíma litið.