152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

142. mál
[18:48]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Hryllingssagan um litla grísinn sem fór í hakkavél minnti mig óhjákvæmilega á orð sem voru höfð eftir Otto von Bismarck um að lagasetning væri eins og pylsugerð, það væri best að sjá ekki hvernig þetta færi fram. Hins vegar treysti ég því að pylsugerð á Íslandi sé allt annars eðlis en sýnt var í þeirri mynd sem hv. þingmaður sá. Það er kannski áminning um að við ættum að gera meira af því að sjá muninn á því hvernig framleiðsla fer fram erlendis annars vegar og svo á íslenskum fjölskyldubúum í fagurri sveit hins vegar.

En ég ætlaði að spyrja hv. þingmann út í atriði sem hann kom inn á í andsvari og varðar vottun. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess og mikilvægið er tvímælalaust að aukast. Neytendur gera auknar kröfur og vilja matvæli sem eru framleidd á heilnæman hátt og ég held að margir íslenskir neytendur vilji fyrst og fremst kaupa íslenska framleiðslu. En það hefur oft verið misbrestur á þessu og menn jafnvel reynt að fara fram hjá því með því að flytja inn vörur og merkja svo með íslenskum fána vegna þess að þeir settu þær í plast á Íslandi eða eitthvað slíkt.

Er hv. þingmaður sammála mér um að við þurfum að hafa í lögum, eins og við höfum talað fyrir, þingmenn Miðflokksins, skýrar reglur um það hvernig upprunavottun fer fram og koma í veg fyrir að menn svindli í þeim efnum?