Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Við ólumst sum upp við það að þurfa að velja á milli myndbandskerfa VHS og U-matic, hljóðkasetta eða mínikasetta og nú eru menn að brölta við að fá makkatölvurnar okkar til að tala almennilega við pc-tölvurnar. Kerfin kallast ekki á sem skyldi. Íslenskum almenningi er verulega brugðið yfir því hversu mislagðar hendur starfsmönnum hins opinbera voru er fötluðum manni og fjölskyldu hans var í síðastliðinni viku vikið úr landi með óviðeigandi hætti með atfylgi lögreglu og fleiri opinberra aðila í skjóli nætur. Þarna hefðu stofnanir ríkisins þurft að kallast betur á og samræma aðgerðir sem þola mættu ljósið, fyrirbyggja skömm, uppnám og mótmæli. Á Íslandi er viðvarandi skortur á vinnuafli og við reiðum okkur á erlent starfsfólk í fjölmörgum geirum. Horfum til þessa þegar við erum að velta því fyrir okkur hvort nýta megi krafta þeirra sem óska eftir því að mega koma, dvelja og starfa á Íslandi, hvort sem um er að ræða fólk sem þarf að flýja hættulegar aðstæður í heimalandi sínu eða fólk sem einfaldlega að leita betra lífs í betri samfélagsgerð.

Annað dæmi. Frjósemisvandi hrjáir fjölda íslensks fólks sem þráir það heitast að mega ættleiða börn. Milljónir foreldralausra barna um allan heim þrá það heitast að eignast fjölskyldu. Hér er verk að vinna við samræmingu laga og regluverks innan landsteina og utan. Undir liðnum störf þingsins vil ég í ljósi framangreinds leggja til að forseti þingsins og forsætisráðherra sammælist nú þegar um að gera það að forgangsmáli að sjá til þess að kerfin okkar dýru megni að tala saman, að augljóst framboð svari augljósri eftirspurn og að stofnanir ríkisins, ráðuneyti og yfirvöld sammælist um að sammælast, ganga í takt við væntingar þegnanna og valda okkur framvegis hvorki kinnroða né álitshnekki. Eftir höfðinu dansa limirnir. Ég vænti jákvæðra viðbragða þeirra sem hér hafði verið brýndir og eggjaðir til dáða, hæstv. forseti.