Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Samgöngur eru grundvöllur byggðar í landinu, æðakerfi mannlegs samfélags út um sveitir landsins. Mörg og mikilvæg samgöngumannvirki hafa litið dagsins ljós á undanförnum áratugum og mörg eru í farvatninu. Það er margt sem er undir og nefni ég þar sérstaklega aðgang að heilbrigðisþjónustu, atvinnulífið og svo margt annað. Við áætlanagerð eru jarðgangakostir metnir til fýsileika, kostnaðar og félagshagfræðilegs ábata með það að markmiði að unnt sé að forgangsraða verkefnum. Þegar framkvæmdum er forgangsraðað er litið til nokkurra mikilvægra þátta, svo sem mats á arðsemi, umferðaröryggis, tengingu atvinnu og búsvæða, svo og áhrifa á byggðaþróun í landinu með hliðsjón af byggðaáætlun.

Við sjáum það oft í umræðunni að einum samgöngubótum er stillt upp gegn öðrum og mikið kapphlaup fer af stað milli landshluta og jafnvel innan landshluta um forgangsröðun. Núverandi áætlanir gera ráð fyrir að eiginlegur gröftur Fjarðarheiðarganga hefjist í apríl eða maí árið 2024 og þau verði síðan tilbúin fyrir almenna umferð snemma árs 2030. Mikil umræða hefur verið um framkvæmdina og sitt sýnist hverjum. En það er mikilvægt að halda því til haga að göng undir Fjarðarheiði eru fyrsti hluti í mun stærri áætlun um að ná hringtengingu um Austurland. Aukin umsvif í atvinnurekstri, svo sem fiskeldi, kalla á hringtengingu. Göng undir Fjarðarheiði eru ekki eingöngu gríðarlega mikilvæg fyrir öryggi íbúa á Seyðisfirði, eins og berlega kom í ljós í skriðuföllunum, málið snýst líka um atvinnulífið út- og innflutning á vörum og svo margt annað.

Frú forseti. Ég þakka fyrir að nú sjái fyrir endann á áralangri baráttu um þessa mikilvægu samgöngubót sem er fyrsti áfangi í mun öflugra samgöngukerfi um allt Austurland fyrir alla Íslendinga.