Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Í október leituðu 80 manns til umboðsmanns skuldara vegna fjárhagsvanda. Þetta eru mikið til öryrkjar og samkvæmt gögnum frá umboðsmanni er meðalgreiðslugeta þeirra minni en engin, 3.500 kr. í mínus, þannig er staðan þegar greitt hefur verið fyrir allar nauðsynjar. Óskertur örorkulífeyrir til einstaklings sem fékk örorkumat 40 ára er u.þ.b. 300.000 kr. á mánuði, 300.000 kr. Hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson segist hafa skapað stéttlaust samfélag. En trúir því einhver hér inni að öryrkinn tilheyri sömu stétt og Bjarni Benediktsson? Að öryrkinn með sínar 300.000 kr. á mánuði tilheyri sömu stétt og forstjórinn sem er með 4 milljónir í mánaðarlaun? Trúir því einhver hérna að fiskverkakona sem vinnur á gólfinu hjá útgerðarfyrirtæki tilheyri sömu stétt og eigandi fyrirtækisins sem greiðir sér hundruð milljóna í arð á hverju ári? Trúir því einhver að láglaunafólkið sem slítur sér út til að sjá börnum sínum farborða tilheyri sömu stétt og fjölskyldurnar sem eiga stóru sjávarútvegsfyrirtækin og raka til sín arðinum af fiskveiðiauðlindinni?

Hæstv. forseti. Tölum bara hreint út hérna. Sá sem heldur því fram að Ísland sé stéttlaust samfélag er veruleikafirrtur, fastur inni í búblu, úr öllum tengslum við fólkið í landinu. Það er þessi firring sem ræður för við stjórn landsins og veldur því að ójöfnuður fer vaxandi milli ára, að tekjurnar sem verða til í samfélaginu hlaðast efst í tekjustigann. Ísland er stéttskipt samfélag (Forseti hringir.) og þeir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar sem afneita því munu aldrei koma til með að breyta þessu. (Forseti hringir.) Til þess þarf nýja stjórn, sterka jafnaðarstjórn.