Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Frú forseti. Ég vil reyna að höfða til samvisku banka og tryggingafélaga. Fram undan eru kjaraviðræður og allar líkur eru á að þær verði nokkuð þungar. Samkvæmt verðlagseftirliti ASÍ hefur hækkun útgjalda hjá fjögurra manna fjölskyldu í eigin húsnæði numið rúmlega 128.000 kr. á mánuði ef miðað er við útgjöld hennar á síðasta ári. Þetta eru verulega háar tölur og til að hægt sé að fleyta íslenskum fjölskyldum í gegnum núverandi ástand þarf meira til en að ríkið komi með aðgerðir. Allir þurfa að líta inn á við, sérstaklega breiðu bökin. Iðgjöld tryggingafélaga hafa hækkað mikið á síðastliðnum árum á sama tíma og tryggingafélög sitja á milljarða bótasjóði. Ábyrgð tryggingafélaga á heimilisbókhaldi íslenskra heimila er því veruleg. Í samtölum mínum við fólk hef ég heyrt að ekki sé óeðlilegt að fjölskyldur greiði á bilinu 40.000–55.000 kr. á mánuði fyrir líf-, bíla- og heimilistryggingar. Þetta eru háar tölur og upphæðir þegar þær eru settar í samhengi við önnur útgjöld sem meðalfjölskylda þarf að greiða, hvað þá barnafjölskyldur sem fyrir utan afborganir af húsnæðislánum þurfa að greiða leikskólagjöld, fæðiskostnað í skólum, íþróttaæfingar og svo mætti lengi telja. Það getur ekki verið að við ætlum okkur að stefna í þá átt að vera samfélag þar sem tryggingar eru aðeins á færi þeirra efnameiri.

Þá birtu Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki uppgjör sitt vegna fyrstu níu mánaða ársins í október. Þar kemur fram að samanlagður hagnaður þeirra á tímabilinu var 50,2 milljarðar kr. Það er vissulega, og það má segja í kaldhæðni, minni hagnaður en árið á undan, en arðsemin er yfir markmiði hjá öllum nema Landsbankanum sem stendur þó alveg ágætlega. Það væri betra fyrir þessi fyrirtæki að stíga þjóðdans en að dansa í kringum gullkálfinn.