Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Nú þegar þingmenn í fjárlaganefnd eru að vinna að því að yfirfara fjárlagafrumvarpið og ráðherrar eru væntanlega farnir að huga að frumvörpum næsta árs vil ég nota tækifærið til að hvetja bæði þingmenn og þá þingmenn sem eru ráðherrar til að huga sérstaklega að iðnnámi. Ekki bara árum heldur áratugum saman hafa stjórnmálamenn á Íslandi talað um mikilvægi iðnnáms og að við þyrftum að hvetja fleira fólk til að leita í slíkt nám, ekki bara iðnnám heldur annars konar tækninám og verknám. En þegar áhugasamir nemendur svöruðu loks kallinu þá var bara lokað, þá var ekki tekið við nema litlum hluta þeirra sem höfðu áhuga á að fara í þetta verðmæta og mikilvæga nám. Hundruðum áhugasamra nemenda var hafnað. Á sama tíma tala sumir ráðherrar og þingmenn um að við munum þurfa að flytja inn mikið af fólki til starfa hér, fólki sem önnur lönd eru búin að mennta og hafa lagt í ærinn kostnað við. Verðum við ekki að byrja á að taka til hér hjá okkur í okkar menntakerfi og sýna að okkur stjórnmálamönnum sé alvara með því að við metum iðnnám, verk- og tækninám? Ég ætla bara að nefna eitt dæmi sem er Hallormsstaðaskóli, sem er nokkurs konar nýsköpunarskóli, ótrúlega merkileg menntastofnun sem menntar fólk á ólíkum sviðum sem eiga það þó öll sameiginlegt að snúast í raun um nýsköpun, að hluta til um að vernda það sem við höfum byggt upp og eigum fyrir en líka um leið að búa til eitthvað nýtt og kenna fólki jafnvel að gera fyrirtæki úr því og búa til sem mest verðmæti úr þeim auðlindum sem við eigum og sérstaklega auðvitað mannauðinum. Ég vona að hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn hugi að þessu núna á næstu misserum.