Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

umfjöllun nefndar um brottvísanir hælisleitenda.

[14:21]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Þetta er ekki boðlegur málflutningur. Ég tel að hv. þm. Andrés Ingi Jónsson hafi farið hér með algjörlega óboðlegan málflutning. Hann segir að ég hafi hringt í einhvern kunningja minn í Grikklandi til að fá upplýsingar um stöðu mála þar. Þessi kunningi minn er framkvæmdastjóri Alþjóðaflóttamannastofnunarinnar í Grikklandi, óháðrar stofnunar. Hann hefur gefið út þá yfirlýsingu að flóttamannabúðir í Grikklandi standist evrópska staðla. Svo kemur hv. þm. Andrés Ingi Jónsson, sem aldrei hefur komið í flóttamannabúðir í Grikklandi, og segir að það sé ófært að senda fólk þangað vegna þess að aðbúnaðurinn sé svo slæmur. Ég er búinn að skoða þessar flóttamannabúðir eins og ég hef sagt nokkrum sinnum í þessum ræðustól. Hefur hv. þm. Andrés Ingi Jónsson skoðað þessar flóttamannabúðir? Nei, hann hefur aldrei gert það, en kemur hins vegar og fullyrðir hér að það sé ekki hægt að senda fólk þangað, að það sé gersamlega óhæft að senda fólk til Grikklands því þessar flóttamannabúðir séu ónýtar. Þetta er kolrangt hjá hv. þingmanni og, frú forseti, þessi málflutningur hv. þingmanns er óboðlegur.