Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

heimsþing kvenleiðtoga í Hörpu.

[14:37]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég finn mig knúna til að koma hingað upp til að nefna mjög athyglisvert mál sem er á döfinni akkúrat núna í Hörpu, heimsþing kvenna í Reykjavík. Ég minni á það að tæplega helmingur kjörinna fulltrúa á hinu háa Alþingi Íslendinga eru jú konur. Á sama tíma og við erum hvattar til þess að vera nú í Hörpunni og gefa þá körlunum um leið eftir sviðið þá furða ég mig á því og velti því fyrir mér, eðlilega, að ef þetta væri heimsþing karla í Hörpunni, hvort við konur fengjum eins gott brautargengi hér við að halda Alþingi gangandi eins og mér sýnist að karlarnir hafi núna í dag. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér finnst þetta frekar lélegt, svo ekki sé meira sagt, illa fram við okkur komið, að hvetja okkur til að taka þátt í alheimsþingi kvenna frá 100 þjóðlöndum. Sýnið nú gestrisni og verið fínar við þær í Hörpunni en við ætlum að sjá um þingið á meðan og þið getið bara gleymt því.