Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

rannsóknasetur öryggis- og varnarmála.

139. mál
[15:56]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er einkenni á þessum aðfluttu Akureyringum að þeir eru miklu brattari en við sem ólumst þar upp í skjóli kaupfélagsins. En ef það næst fyrir jól þá er það bara fínt. Ég er ánægður með að þetta byggi á einhvers konar norrænni sýn. Það er frábært að við séum að velta fyrir okkur þessum fjölþátta ógnum, neti og fjarskiptum og guð má vita hvað þetta heitir allt saman. En ég vildi bara minna á að loftslagsógnin verður ekki tekin út fyrir sviga þegar við ræðum frið og öryggi. Þar þurfa þessar ríku þjóðir á Norðurlöndunum og Evrópuþjóðir allar, sem hafa nýtt sér forskot sitt síðustu 120 árin með iðnvæðingunni og komið sér býsna vel fyrir — það er ekki nóg fyrir þessar þjóðir að bjóða bara upp á metnaðarfullar aðgerðir heima fyrir og uppfylla sinn þátt í einhverjum sameiginlegum loftslagsmarkmiðum. Við þurfum að fara að finna leiðir til þess að lyfta upp öðrum þjóðum sem eru hreinlega ekki í þeirri stöðu að geta gripið til slíkra aðgerða. Það má a.m.k. eyða heillöngum tíma í að velta fyrir sér heimspekilegum spurningum á borð við þær hvort mjög fátækar þjóðir eigi þá aldrei að fá möguleika til þess að iðnvæðast.

Ég vildi bara aðeins í þessari örstuttu ræðu víkka þetta út. Umræðuefnið er svo ótrúlega breitt og það er sannarlega alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er ekki síst á þeim sviðum sem hann tæpir á í ræðunni. En við þurfum samt að leyfa okkur að hugsa þetta miklu víðara.