Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

rannsóknasetur öryggis- og varnarmála.

139. mál
[15:58]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég gleymdi að minnast á punktinn sem ég var búinn að skrá hér með flóttamannavandann. Ætli þetta séu ekki 90–100 milljónir í dag, voru 66 milljónir fyrir þremur til fjórum árum, sem eru á flótta. Þetta er einmitt eitt af þessum málum sem er verið að ræða heilmikið á NATO-þinginu. Fyrir þremur árum fór ég með stjórnmálanefnd NATO-þingsins til Addis Ababa í Eþíópíu þar sem m.a. var verið að ræða þessi mál, mannfjölgun í Afríku og ýmislegt sem er í gangi og flóttamannamálin. Þá var verið að ræða loftslagsmálin. Hvað gerist eftir einhver ár þegar það hlýnar það mikið á lendum Afríku þar sem hægt er að rækta mikið og það verður vatnsskortur? Nú eru komin fimm ár í röð sem ekki hefur rignt í Eþíópíu og í Sómalíu og þessum svæðum, fimm ár. Það er óþekkt. Við þurfum að fara aftur til þess er við vorum börn, væntanlega í kringum 1980, til að sjá eitthvert svipað ástand. Þetta er því gríðarlega mikilvægt þegar við erum að ræða öryggismál í stærra samhengi sem er sjaldan rætt um, en það er verið að hugsa um þessi mál í þessu samhengi.

Það er líka nákvæmlega það sem er gott hjá hv. þm. Loga Einarssyni að koma inn á, þ.e. hvernig við byggjum þessar þjóðir upp. Ég var að hlusta á podcast um helgina, frá Economist, með leyfi forseta:

Afríkubúinn er að nýta 185 kwst. á ári, Evrópubúinn 6.700 og Ameríkaninn 12.000–13.000 kwst. á ári. Ef menn ná ekki einhverju samhengi í þessu og að nýta endurnýjanlega orkugjafa til að byggja upp samfélögin — þetta er ótrúlegur samanburður sem ég heyrði þarna í gær á Economist.