Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

rannsóknasetur öryggis- og varnarmála.

139. mál
[16:03]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um rannsóknasetur öryggis- og varnarmála. Ég vil þakka framsögumanni, hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni, fyrir að fara vel yfir hana. Í ljósi aðstæðna, í ljósi þess sem er að gerast í vestrænum heimi í öryggis- og varnarmálum, eins og hv. þm. Logi Einarsson kom inn á, hefði verið gott að við hefðum átt slíkt rannsóknasetur. Það er alveg ljóst að við þurfum á því að halda og við þurfum almennt að efla þekkingu okkar á öryggis- og varnarmálum. Í því tilliti er vert að nefna að í núverandi fjárlagafrumvarpi er einmitt gert ráð fyrir því að veittir verði fjármunir í að reyna að styrkja þekkingu okkar starfsmanna á þessu sviði.

Almennt er það auðvitað þannig að við Íslendingar búum, að ég held, að nokkuð góðu fræða- og rannsóknasamfélagi og gríðarleg tækifæri felast í að setja sjálfstætt rannsóknasetur um öryggis- og varnarmál á laggirnar, ekki bara til að efla þekkingu okkar heldur einnig til útflutnings, ef svo má segja. Við Íslendingar búum svo vel að hafa aðgang að ýmsum rannsóknasjóðum og mér finnst ólíklegt að við höfum verið dugleg að sækja í rannsóknasjóði sem snúast um öryggis- og varnarmál. Ég kann að hafa rangt fyrir mér þar en það yrðu sannarlega sóknarfæri fyrir sjálfstætt rannsóknasetur að gera það. Það mun gera það að verkum að við fáum góðar rannsóknir og ritrýnd gögn en ekki síður getur það orðið til þess að efla samvinnu því að rannsóknir hér á landi eru í mjög mörgum tilfellum í góðu samstarfi við nágrannaþjóðir okkar og vísindafólk alls staðar að úr heiminum.

Hér hefur margt verið nefnt og það er eðlilegt enda kominn tími til að við förum almennt að ræða um öryggis- og varnarmál af miklu meiri þunga en gert hefur verið á undanförnum árum. Mér þykir leitt að fyrir því skuli vera sú ástæða sem raun ber vitni, þ.e. stríð í Evrópu, sem er algerlega nýtt fyrir okkur, og þær hörmungar sem eiga sér stað í Úkraínu. Við megum aldrei sofna á verðinum, frú forseti, í þessum málaflokki vegna þess að heimurinn er hverfull og hann getur breyst mjög hratt.

Öryggis- og varnarmál eru, eins og hér hefur komið fram, gríðarlega vítt svið og hér hefur verið nefndur, ef ég má taka svo til orða, nýjasti þáttur þess sem eru þessar fjölþátta ógnir. Ég hef nefnt það hér í ræðustól Alþingis, og víðar í störfum mínum fyrir utanríkismálanefnd, hversu gott tækifæri ég tel felast í því að við Íslendingar leggjum okkar af mörkum til öryggis- og varnarmála, einmitt á sviði fjölþátta ógna. Ég hef m.a. kallað eftir sérstakri umræðu um netöryggismál í þinginu sem ég vonast til að komist á dagskrá í haust. Það eru nefnilega mun fleiri þættir en það sem við köllum oft hefðbundin varnarmál sem eru þarna undir. Ég fagna því mjög þessari þingsályktunartillögu og hlakka til að ræða hana í utanríkismálanefnd.

Við vitum að það kostar peninga að setja setur af þessu tagi á laggirnar. Þarna er gert ráð fyrir tveimur starfsmönnum. Fljótt á litið myndi ég ætla að þeir borgi sig tiltölulega fljótt upp ef sótt yrði í alþjóðlega sjóði og kannski gæti setur sem þetta vaxið og dafnað með hverju árinu. Einhvern tímann þurfum við að stíga fyrsta skrefið og það er mikilvægt að ríkisvaldið stígi það og þá með stuðningi hér á Alþingi.

Loftslagsmálin gleymast sannarlega oft í þessari umræðu, þegar við ræðum um þær ógnir sem kunna að steðja að okkur. Hér hefur flóttamannavandinn, sem blasir við okkur, verið nefndur og að öllum líkindum á sá vandi einvörðungu eftir að aukast, sem er auðvitað mjög slæmt og við þurfum öll að gera okkar í því tilliti. Loftslagsógnin mun að öllum líkindum auka líkurnar á ófriði. Við stöndum mjög vel hér á norðurslóðum miðað við margar aðrar þjóðir. Í þessu tilliti væri áhugavert, þegar sjálfstætt rannsóknasetur, ég segi þegar og ef, verður komið á laggirnar, að leggja það til að sérstaklega verði horft til þeirra ógna sem kunna að steðja að okkur í kjölfarið á loftslagsógninni, ef svo má til orða taka.

Eins og ég hef nefnt hér er gríðarlega mikilvægt að við höldum áfram að ræða öryggis- og varnarmál. Það er samt sem áður mín von að þegar í stað verði hægt að tengja marga sérfræðinga hér innan lands við setrið. Vert er að halda því til haga að nú þegar höfum við töluverða þekkingu á málaflokknum. Það hefur sýnt sig, til að mynda með þeim fundum sem Alþjóðastofnunin hefur haldið, að sérfræðingar fara erlendis og eru nú þegar í alþjóðasamstarfi um öryggis- og varnarmál og þeir myndu þá taka virkan þátt í starfi setursins þegar búið verður að koma því á laggirnar.

Annars vil ég bara þakka fyrir tillöguna og ég hlakka til að ræða hana enn frekar. Ég held að það sé líka tækifæri til þess að setja inn í hana enn frekari áherslur sem ræddar hafa verið hér á Alþingi á undanförnum vikum og mánuðum til þess að styrkja málið kannski enn frekar þegar kemur að því að taka ákvörðun um það í framhaldinu.