Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

rannsóknasetur öryggis- og varnarmála.

139. mál
[16:27]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Bara rétt aðeins að spyrja hv. þingmann, af því að hann nefndi viðburð sem verður haldinn hér á næstu dögum í samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, stofnun sem var einmitt minnst á fyrr í umræðunni sem rannsóknasetur á því sviði sem hér ræðir um. Alþjóðamálastofnun heldur utan um Höfða friðarsetur en hefur líka árum saman stundað ýmsar rannsóknir og haldið viðburði og verið bara í alls konar starfi sem tengist öryggis- og varnarmálum. Það var t.d. innan Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands sem vinna í kringum útvíkkað öryggishugtak fór fram hér í gamla daga þegar áhættumatsskýrslan var unnin.

Mig langar bara að spyrja hv. þingmann í ljósi þess að Ísland er ekki mjög stórt land og við eigum kannski ekki endalausan brunn af sérfræðingum í alþjóðamálum eða öryggisfræðum: Þarf nýtt setur? Væri ekki bara ágætt að treysta og styrkja Alþjóðamálastofnun til að vinna að þessu verkefni áfram?