Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

fullgilding og lögfesting valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

49. mál
[17:21]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Eins og kemur fram í ágætri greinargerð með þessari þingsályktunartillögu þá er fullgildingin til skoðunar hjá íslenskum stjórnvöldum. Ég vil líka vekja athygli á því að tillagan til þingsályktunar er um fullgildingu og lögfestingu valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég vil bara beina þeim orðum mínum til framsögumanns hér, hv. þm. Guðmundar Inga Kristinssonar, að ég tel rétt að við leggjum fram frumvarp um lögfestingu á þessari bókun. Ég held að það gæti skapað grundvöll fyrir það að fatlaðir einstaklingar gætu kært utan landsteinana. Það er þá alla vega kominn lagagrundvöllur hér heima. Ég get ekki séð að ein undirritun við fullgildingu eða bréf frá framkvæmdarvaldinu út í heim skipti máli þar. Ég get ekki ímyndað mér að nefndin fari að segja nei við því að taka á móti kæru héðan. Ég vil vekja athygli á máli sem kom upp hér fyrir nokkrum vikum þegar fatlaður maður var tekinn úr stóli sínum. Ef við hefðum innleitt þetta, (Forseti hringir.) telur hv. þingmaður ekki að fullgildingin og lögfestingin myndi auka réttindi og meðvitund innan stjórnkerfisins og annars staðar í samfélaginu (Forseti hringir.) að þessi kæruleið væri virt eins og við sjáum varðandi Strassborgardómstólinn?