Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

fullgilding og lögfesting valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

49. mál
[17:26]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst hv. þingmaður í raun vera að spyrja mig hvort Ísland sé nokkuð stéttlausa samfélagið sem mér heyrðist fólk uppi í Valhöll halda fram að það væri nú um helgina. Það er það svo augljóslega ekki og hægt er að líta á ýmsa jaðarsetta hópa því til stuðnings. Vandinn við stóran hóp fatlaðs fólks og þá þjónustu sem því er ekki veitt er að það er búið að lögfesta mikið af því. Við erum með NPA-lögin sem kveða á um þjónustu við fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Sú þjónusta er skömmtuð með fjárlögum þannig að hún nær ekki upp í þá þörf sem er raunverulega til staðar í samfélaginu.

Í sömu lögum er, að mig minnir, fjallað um rétt fatlaðra einstaklinga til sjálfstæðrar búsetu. Til að sá réttur raungerist þarf einhver, annaðhvort frá ríki eða sveitarfélögum, að taka sig til og ræða við það fólk sem mögulega gæti nýtt sér slík úrræði, fólk sem er mögulega á einhverjum sambýlum eða í einhverjum búsetuúrræðum sem heyra orðið að mestu til gamalli tíð og við þurfum að fara að fasa út. Það þarf að banka upp á hjá öllu þessu fólki og athuga hvort það eigi ekki frekar heima í sínu eigin húsnæði í samræmi við NPA-lögin og með þjónustu á eigin forsendum í samræmi við lögin. Mér vitanlega er engin slík vinna farin af stað neins staðar enda myndi sá halli sem er á framkvæmd stjórnvalda gagnvart fötluðu fólki verða enn brattari. Þá allt í einu myndi birtast fólk sem á lögum samkvæmt heimtingu á meiri þjónustu en það er að fá í dag en situr í einhverjum úreltum úrræðum, og við það er látið sitja.