Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

fullgilding og lögfesting valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

49. mál
[17:41]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er engin vinna sem þarf að vera unnin hér. Samningur Sameinuðu þjóðanna er algerlega tilbúinn og hann liggur hreinlega á borðinu og hefur gert það núna síðustu 15 ár, ég veit ekki í hversu langan tíma en minnir að það hafi verið í mars 2007 sem skrifað var undir viljayfirlýsinguna og annað slíkt. Ég veit ekki hversu mörg ár þarf til þess. Vilji ráðherra er alveg skýr. Það er búið að mæla fyrir þessum samningi oftar en einu sinni og oftar en tvisvar við litlar eða engar undirtektir og jafnvel enginn ráðamaður í salnum. Ég vil meira að segja leyfa mér að segja, hv. þingmaður, að þau hafi ekki hugmynd um að við séum að ræða þetta mál akkúrat núna. Ég geng nú svo langt vegna þess að værukærðin og tómlætið gagnvart fátæku og fötluðu fólki er með slíkum ólíkindum að ég trúi varla að þau séu með eyrun opin.