Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

fullgilding og lögfesting valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

49. mál
[17:46]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég er stoltur meðflutningsmaður þessarar þingsályktunartillögu um fullgildingu og lögfestingu valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ferill þessa máls er einkar áhugaverður líkt og hv. framsögumaður Guðmundur Ingi Kristinsson rakti í framsögu sinni. Hér hafa verið samþykktar þingsályktunartillögur um að fullgilda þessa bókun og, eins og kemur fram í greinargerð þingsályktunartillögunnar, var tillaga til þingsályktunar nr. 61/145 samþykkt með breytingartillögu þess efnis að auk samningsins sjálfs skyldi jafnframt fullgilda valfrjálsu bókunina fyrir árslok 2017. Með þeirri breytingu var þingsályktunartillagan samþykkt einróma. Þrátt fyrir það hefur bókunin enn ekki verið fullgild af hálfu Íslands og eins og kemur fram í greinargerðinni er þetta mál enn þá til skoðunar hjá stjórnvöldum. Nú er fullgilding í sjálfu sér ekki flókin athöfn, hún er það alls ekki. Lögfesting er það í sjálfu sér ekki. Við erum með samninginn fyrir hendi og getum lögfest hann og við getum líka lögfest þessa valfrjálsu bókun. Það þarf að leggja þetta fram í frumvarpsformi og þrjár umræður og samþykkja það og þá er þetta orðið lögfest. Það er hins vegar til skoðunar hjá stjórnvöldum hvort eigi að gera það.

Ég tel að hér sé um mikið mannréttindamál að ræða fyrir fatlað fólk og ég bara skil ekki að það sé ekki löngu búið að gera þetta. Þegar Alþingi samþykkir eitthvað, lýsir yfir vilja sínum í þingsályktun til að fullgilda þessa frjálsu bókun fyrir árslok 2017, meiri hluti Alþingis, þá eiga stjórnvöld, ríkisstjórn sem styður við þingmeirihlutann, að framkvæma það fyrir árslok 2017. Núna er kominn nóvember, það er nálgast árslok 2022, fimm ár hafa liðið og það er ekki búið að fullgilda þetta. Það er algerlega með hreinum ólíkindum. Hvað þýðir það að ekki sé búið að fullgilda samninginn? Jú, það þýðir að fatlað fólk hefur ekki kæruheimild til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þetta er sambærileg kæruheimild og er t.d. í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og kæruleiðin er líka samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem byggir á þriðju valfrjálsu bókuninni við þann samning.

Ég tel að með því að hafa ekki samþykkt þessa bókun, löggilt hana og lögfest samninginn sé verið að hafa réttindi af fötluðu fólki. Það að þetta sé í endalausri vinnu er algjörlega óásættanlegt. Þetta er eins og annað með þessa ríkisstjórn, eins og kom fram í máli hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur, að það er verið að skoða málið. Það bíður heildarendurskoðunar. Almannatryggingalöggjöfin bíður heildarendurskoðunar. Þrátt fyrir að Flokkur fólksins hafi lagt fram mörg frumvörp um einfaldar breytingar á almannatryggingalöggjöfinni til þess að bæta réttindi fatlaðra og öryrkja og eldra fólks, nei, þá þarf að bíða heildarendurskoðunar. Það er verið að hafa réttindi af fólki með þessari afsökun: Það er til heildarendurskoðunar. Það er ekkert nema fyrirsláttur. Það þarf ekkert að breyta öllum heiminum þegar verið er að auka réttindi fólks á ákveðnum sviðum og það þarf ekki að bíða heildarendurskoðunar heildarlöggjafarinnar um almannatryggingar þegar breyta þarf ákveðnum réttindum til að gera réttarbætur hjá öryrkjum og öldruðum. Það þarf ekki. Það vita það allir. Það er miklu einfaldara að gera þetta smátt og smátt. Þetta eru einföld úrræði eins og skerðingar og annað slíkt.

Varðandi það að verið sé að taka þann rétt af fötluðum að kæra út í heim, en þá myndi nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks geta tekið á þeim kærumálum sem kæmu til hennar frá fötluðum einstaklingum á Íslandi, þá er það mjög slæmt. Mig langar að benda á 1. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, með leyfi forseta:

„Markmiðið með samningi þessum er að efla, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og til jafns við aðra allra mannréttinda og grundvallarfrelsis og að efla virðingu fyrir eðlislægri reisn þess.“

Hérna er bara verið að fara fram á að fatlaður einstaklingur á Íslandi geti farið út í heim, kært fyrir nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, fyrir nefnd hjá alþjóðlegri stofnun, skorað á stjórnvöld, sagt að þau séu að brjóta á honum. Og hvaða einstaklingar eru þetta? Þá getum við lesið 2. mgr. 1. gr., með leyfi forseta:

„Til fatlaðs fólks teljast m.a. þau sem eru með langvarandi líkamlega, andlega eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun og sem verða fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra.“

„Komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra.“ Hér er bara verið að fara fram á það að einstaklingar á Íslandi geti kært til nefndar Sameinuðu þjóðanna til að tryggja það að þeir geti tekið þátt í samfélaginu með árangursríkum hætti til jafns við aðra. Svo einfalt er það og það þarf enga nánari skoðun. Það þarf enga heildarendurskoðun á löggjöf á Íslandi til að samþykkja þessa bókun. Ég tel reyndar að núna ættu þingmenn að leggja fram frumvarp um lögfestingu þessarar bókunar, samningsins í heild, og ekki að vera að bíða eftir einhverri skoðun í nefnd í Stjórnarráðinu sem kemur lítið úr, ekki nema þeir myndu þá setja það í frumvarpsform. Það væri hægt að gera það á stuttum tíma.

Það kemur fram í greinargerðinni að 100 ríki af þeim 184 ríkjum sem hafa samþykkt þennan samning hafa fullgilt þessa valfrjálsu bókun — en ekki Ísland. Eins og kemur fram í greinargerðinni, í tengslum við úttektir mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttindamála á Íslandi, þá hafa íslensk stjórnvöld ítrekað verið hvött af öðrum ríkjum til að fullgilda valfrjálsu bókunina. Það eru ekki bara ítrekaðar þingsályktunartillögur sem hafa verið samþykktar, viljayfirlýsingar frá þinginu um að fullgilda, heldur hafa líka önnur ríki verið að benda á þetta. Samt er málið í skoðun. Hvað er það sem er verið að skoða? Mig langar bara að vita það: Hvað er það sem er verið að skoða? Þetta er svo augljóst mál. Þetta er ekki flókið á nokkurn einasta hátt.

Annað sem mig langar að benda á er það að Íslendingar hafa ætíð og yfirleitt sótt rétt sinn erlendis. Við getum tekið dæmi um Mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindadómstól Evrópu. Lögfræðingar grínast með að það sé heil álma sem sinnir Íslandi þar. Við erum með fjölda mála frá Íslandi miðað við önnur Norðurlönd, við erum með svo miklu fleiri mál heldur en frá hinum Norðurlöndunum. Íslendingar hafa ætíð sótt rétt sinn erlendis. Það hafa þeir gert um aldir og nægir nánast að tala um Jón Hreggviðsson en hann var í Kaupmannahöfn í 18 ár og beið úrlausnar sinna mála þar. Það var ekki á Íslandi sem hann fékk hana en það er önnur saga.

Ég get tekið dæmi um að við breyttum öllu dómstólakerfi okkar út af máli áhugamanns um hjólreiðar sem var tekinn fyrir brot á biðskyldu og svo fyrir aðeins of hraðan akstur þar sem 50 km hámarkshraði var á Akureyri. Hann kærði það mál til Strassborgar og það breytti öllu héraðsdómstólakerfi landsins þannig að það voru stofnaðir héraðsdómstólar út um allt land og fógetaembættin voru lögð niður, sem var kerfið frá einveldistímanum. Ég efast ekki um að ef fatlað fólk á Íslandi fær þennan rétt til kæruheimildar þá muni það nýta sér hann í ríkum mæli til að tryggja fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra, vegna þess að íslensk stjórnvöld eru ekki að tryggja þennan rétt í dag. Þess vegna er þetta svo mikilvægt. Þetta er mikilvægt af því að íslensk stjórnvöld hafa ekki sinnt þessum málaflokki nægilega og þau geta sagt að þau séu með það í skoðun og annað slíkt. Það er bara staðreynd málsins að við erum eftirbátar annarra ríkja og þess sem önnur ríki hafa gert á vettvangi Sameinuðu þjóðanna varðandi úttektir mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Það er staðreynd málsins.

Íslenskt samfélag yrði betra og það yrði mannúðlegra og ekki þessi harka sem er í samfélaginu miðað við önnur norræn ríki ef við myndum ganga til móts við fatlaða einstaklinga með því að samþykkja þessa bókun, samþykkja þessa tillögu til þingsályktunar um fullgildingu á lögfestingu þessarar valfrjálsu bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og að sjálfsögðu tryggja þau réttindi sem þar eru. Það eigum við að geta gert án þess að íslenska ríkið fari á hausinn. Það kostar ekki neitt að samþykkja þessa valfrjálsu bókun og það eigum við að gera með miklum meiri hluta þingmanna. Og þegar búið er að svíkja tímafrestinn (Forseti hringir.) um að gera þetta fyrir lok árs 2017 þá eigum við að hafa þennan tímafrest skamman, eins og kemur fram, fyrir árslok 2022. Það er hægt að gera þetta (Forseti hringir.) strax í desember.