154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

almennar sanngirnisbætur.

449. mál
[13:52]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um almennar sanngirnisbætur og vil ég byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur fyrir þetta mikilvæga mál og þá miklu og mikilvægu vinnu sem hæstv. ráðherra hefur lagst í til að taka á þeim flókna vanda sem svo ótrúlega margir þurfa að lifa við. Hópurinn er gríðarlega fjölbreyttur og ef við horfum breitt yfir sviðið þá erum við að horfa til einstaklinga sem hafa verið vistaðir sem börn, við erum að tala um fatlað fólk og að mínu mati þurfum við að horfa enn þá víðara. Úr sögunni þekkjum við mikið af því sem ekki voru stök heimili fyrir hóp barna heldur voru börn send í sveit og vistuð hér og þar. Því miður eru óteljandi sögur af harðræði og ofbeldi sem einstaklingar hafa upplifað í slíkum úrræðum.

Ég fagna mjög þessu frumvarpi og þó að við getum alltaf rökrætt um upphæðir, orðalag og annað er meginatriðið það að við erum að koma einhverju skikki á mjög flókinn og sáran málaflokk sem við þurfum að standa með af virðingu og gera þeim þolendum sem þarna falla undir kleift á þægilegan hátt að leita réttar síns.

Mig langar líka aðeins til að brýna hæstv. ráðherra, og alla ráðherra og okkur þingmenn, ekki síst hvað snertir allsherjar- og menntamálanefnd, að horfa til framtíðar. Við erum í dag, árið 2023, með ýmis úrræði fyrir börn, fatlað fólk, fólk með geðrænan vanda og fólk með fíknivanda, þar sem einstaklingar dvelja. Mig langar að nefna þetta sérstaklega af því að ég vil ekki vera í þeirri stöðu eftir tíu ár, 15, 20 eða 30, eða hvað sem það er, að þurfa að horfa framan í þolendur dagsins í dag og ræða hvers konar bætur geti orðið til þess að lina þjáningar þeirra. Að því leyti vil ég ítreka það að allt eftirlit verður að vera algerlega á tæru. Ég hef sérstaklega oft nefnt í ræðu og riti þá stöðu þegar einkaaðilar eru að taka að sér slík gríðarlega flókin verkefni þar sem undir er fólk í mjög veikri stöðu, fólk með fíknivanda, eða börn og ungmenni í mjög flókinni stöðu. Hér er mikið fjallað um að þetta séu stofnanir sem voru á vegum ríkisins og það er alveg rétt að þar brást eitthvað í okkar kerfi, af því að margir einstaklingar liðu vítiskvalir í þeirri vist. En þegar horft er til framtíðar hefur nú mikið af þessum verkefnum verið útvistað til einkaaðila og þá er það á okkar herðum hér á hinu háa Alþingi að setja slíkt regluverk að eftirlit sé öflugt og þannig úr garði gert að við þurfum ekki að horfast í augu við á komandi árum brotna einstaklinga sem hefur verið farið illa með á meðan við stóðum einhvern veginn hjá og þögðum.

Ég fagna aftur þessu frumvarpi og ég held að sú leið sem hér er valin sé góð og við séum að setja hér sterkari ramma utan um þennan málaflokk, og það er vel. Ég vildi koma hér upp til þess að þakka hæstv. forsætisráðherra en einnig til að brýna okkur öll að vera meðvituð um þá stöðu að enn þá eru einstaklingar vistaðir á stofnunum, hvort sem þær eru í ríkis- eða einkarekstri. Því fólki megum við ekki bregðast.