154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

467. mál
[14:21]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það sem skiptir kannski mestu máli hér, og það er sannarlega rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns, er að mikilvægt er að líta sérstaklega til umhverfissjónarmiðanna, en um leið er mikilvægt að tilgreina skilyrði og takmarkanir á þessum afla til að prófa búnað. Ráðuneyti mitt gerir ráð fyrir að afli sem veiðist við prófanir sem þessar verði óverulegur og bendir á að reglugerðarheimild þurfi að vera fyrir ráðherra til að mæla fyrir um takmarkanir og skilyrði fyrir veitingu leyfis til þess að prófa búnað. Þá verði frekar um að ræða nokkur tonn heldur en tugi, ég tala nú ekki um hundruð tonna. Ég held að það væri ekki skynsamlegt að setja upp sérstakan sjóð til að rúma það sem þar myndi falla til. Ég vil hins vegar segja, vegna vangaveltna hv. þingmanns, að ég held að öll þessi sjónarmið séu eitthvað sem hv. atvinnuveganefnd eigi að taka og geti vel tekið til skoðunar. En ég held að aðalatriðið sé að þarna er í raun og veru verið að skjóta lagastoð undir mjög mikilvægar heimildir til að fram geti farið prófanir á vinnslu- og veiðarfærabúnaði í þessu skyni. Það er afar mikilvægt, bæði út frá sjónarmiðum um hagkvæmni og skilvirkni, eins og hv. þingmaður nefnir hér, en síðast en ekki síst vegna umhverfissjónarmiða og þeirra nauðsynlegu hvata sem þarf að leggja til svo að framfarir og nýsköpun verði á þessu sviði.